Lík­lega verða margir sem gera sér ferð norður á land yfir Verslunar­manna­helgina enda veður­spáin með besta móti og lítið um úti­há­tíðir eða skipu­lagða dag­skrá um helgina.

Fjöl­skyldu­há­tíðin „Ein með öllu“, sem al­mennt er haldin á Akur­eyri um Verslunar­manna­helgina, var blásin af í seinustu viku eftir að til­kynnt var um nýjar sam­komu­tak­markanir en ein­hverjir við­burðir lifa á­fram og gera bænum daga­mun.

Þá verður sér­stök á­hersla á úti­vist og hreyfingu þar sem fjalla­hlaupið Súlur Verti­cal verður í for­grunni með breyttu sniði. Dag­skrána í heild sinni er hægt að sjá á veð­síðu Einnar með öllu.

Ein­hverjar götu­lokanir verða í gildi en þær eru í mun minni mæli en í venju­legu ár­ferði, segir Jón Þór Kristjáns­son verk­efna­stjóri upp­lýsinga­miðlunar hjá Akur­eyra­stofu.

„Þær götu­lokanir eru fyrst og fremst á morgun, laugar­dag, vegna Súlur Verti­cal hlaupsins sem lýkur niðri í bæ og fer í gegnum bæinn,“ segir Jón.

Göngu­gatan og litlar götur í mið­bænum verða lokaðar um helgina eins og alltaf um Verslunar­manna­helgi.

Götulokanir á Akureyri um helgina
Mynd/Akureyrarbær

Tjald­svæðið á Akur­eyri hefur verið vel sótt í sumar og engin á­stæða til að búast við öðru þessa helgi. Núna er að­eins hægt að hafa hluta af þeim fjölda sem er venju­lega vegna sam­komu­tak­markanna.

„Það má búast við því að færri komist að en vildu vegna þessara fjölda­tak­markanna sem er mikil­vægt að við virðum,“ segir Jón en reiknað er með því að tjald­svæðin munu fyllast.