Greining á neysludrifnu kolefnisspori Íslendinga gefur til kynna að takmörkuð innistæða sé fyrir grænni ímynd Íslands á alþjóðavísu. Þetta segir Jukka Heinonen, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, sem hefur rannsakað neyslutengda losun gróðurhúsalofttegunda frá árinu 2009.

Rannsókn sem hann vann að bendir til að þegar neysla Íslendinga á innfluttum varningi er skoðuð og ekki einungis horft til útblásturs sem á sér stað innanlands sé losun íslenskra heimila áþekk þeirri í Evrópusambandsríkjum, þrátt fyrir sérstöðu Íslands í nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum.

Sé útblástur tengdur fjárfestingum, uppbyggingu og losun á vegum hins opinbera talin með sé losunin ein sú mesta í heiminum eða 22,5 tonn koldíoxíðsígilda á meðal Íslending.

Meginniðurstöður Jukka og félaga voru fyrst birtar árið 2017 en voru kynntar á dögunum í tilefni af Evrópskri nýtniviku.
Clarke o.fl. 2017

Með neysludrifnu kolefnisspori er átt við allan þann útblástur gróðurhúsalofttegunda sem til kemur vegna samgangna og neyslu einstaklings, þar með talið þá losun sem fellur til í erlendum ríkjum vegna framleiðslu á innfluttum vörum.

Í áðurnefndi rannsókn var kolefnisspor einstaklinga reiknað út með því að tengja gögn um útgjöld íslenskra heimila á árunum 2010 til 2012 við vistsporsgagnabankann Eora. Með því fékkst gróflega áætlað mat á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda. Var þetta í fyrsta sinn sem neysludrifið kolefnisspor Íslendinga er kannað.

Mikill útblástur í alþjóðlegum samanburði þrátt fyrir orkugjafa

„Þessi niðurstaða er ekki mjög ólík því sem sést í öðrum velmegunarríkjum en sérstaða Íslands er sú að mjög stór hluti allra neysluvara er innfluttur,“ segir Jukka sem bætir við að með því útvisti Íslendingar stórum hluta losunar sinnar til annarra ríkja og ekki síður þróunarríkja.

Niðurstaðan sýni að þjóð geti verið með mikinn útblástur miðað við höfðatölu þrátt fyrir að notast nær alfarið við endurnýjanlega orkugjafa innanlands. Þegar einungis sé horft á losun innanlands geti það leitt til tálsýnar hjá ríkum þjóðum um að þær séu að minnka útblástur sinn á meðan hann eykst í raun hnattrænt.

99% orku sem nýtt er til rafmagnsframleiðslu og húshitunar á Íslandi kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum.
Fréttablaðið/Vilhelm

Mesta losunin í þróunarríkjum

Samkvæmt greiningu Jukka og félaga kemur um 71% útblásturs íslenskra heimila til vegna innfluttra vara og er svokölluð útblástursbyrgði, það er hvar losunin á sér stað, mest í þróunarríkjum. Samgöngur, matur og vörur eru ábyrg fyrir stærstum hluta útblástursins.

Auk þess er kolefnissporið sem þau reiknuðu út 55% stærra en svæðisbundnar útblástursmælingar höfðu gefið til kynna sem íslensk stjórnvöld hafa miðað við í loftslagsmarkmiðum sínum.

Stjórnvöld taki ekki mið af losuninni

Jukka segir að stjórnvöld á Íslandi sem og víðast hvar annars staðar horfi lítið til þessarar útvistuðu losunar í loftslagsáætlunum sínum. Sú nálgun litist af því að skuldbindingar ríkja gagnvart Kýótó-bókuninni og Parísarsamkomulaginu taki einungis til losunar sem eigi sér stað innan landamæra þeirra og ekki þeirrar sem auðugri ríki beri ábyrgð á í öðrum löndum.

„Það þýðir samt ekki að það eigi að líta alfarið fram hjá hinni losuninni heldur á að horfa á þetta saman,“ segir Jukka.

Mikilvægt sé að stjórnvöld hugi að því að breytingar á neyslumynstri séu lofslagsmarkmiðum þeirra til framdráttar þó samdrátturinn í losun eigi sér ekki stað innanlands.