Kjörsókn í sveitarstjórnarkosningum hefur hrunið um 20 prósent á 20 árum, eða um 1 prósent á ári að meðaltali. Átak sem farið var í til að efla kjörsókn ungs fólks er í lamasessi og lítið sem ekkert hefur verið gert til að efla kjörsókn erlendra ríkisborgara eftir að kosningalög voru rýmkuð um áramót.

Árið 2002 var kjörsóknin 83,2 prósent, mjög svipuð og hún hafði verið um áratuga skeið. En þá byrjaði hún að minnka skarpt. Eftir afar slæma kjörsókn árið 2014, aðeins 66,5 prósent, lét innanríkisráðuneytið gera rannsókn á kjörsókninni og tillögur að úrbótum.

Upp úr þessu spratt meðal annars átakið Ég kýs, sem Landssamband ungmennafélaga, Samband íslenskra framhaldsskólanema og fleiri komu að til að auka kjörsókn ungs fólks. Meðal annars með skuggakosningum í framhaldsskólum. Í næstu kosningum, árið 2018, jókst kjörsóknin um 1,5 prósent og verkefnið jók einnig kjörsókn í alþingiskosningum árið 2017. Verkefnið var hins vegar ekki framkvæmt í ár.

„Við höfðum hvorki fjármagn né getu til þess að framkvæma verkefnið fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í ár. Lýðræðið kostar mikla peninga,“ segir Tinna Isebarn, framkvæmdastjóri Landssambands ungmennafélaga.

Árið 2018 var Ég kýs-verkefnið framkvæmt í meira en 20 sveitarfélögum. Tinna segir þetta mun flóknara og tímafrekara í framkvæmd en fyrir alþingiskosningarnar. Fyrir utan fjárskortinn hafi Covid-19 einnig haft áhrif á starfið. „Faraldurinn hafði hræðileg áhrif á starfið okkar,“ segir hún.

Tinna segir verkefnið ekki alfarið hætt og reynslan hafi verið góð þegar það var í gangi. Það þurfi hins vegar að taka pólitíska ákvörðun um að setja pening í verkefnið. „Ég mæli með að hið opinbera fjárfesti í átaki til að auka kjörsókn,“ segir Tinna. „Rannsóknir sýna að félagasamtök ungs fólks eru öflugt verkfæri til að virkja borgaralega þátttöku.“

Tinna Isebarn framkvæmdastjóri Landssambands ungmennafélaga
Fréttablaðið/Aðsend

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, var einn þeirra sem gerðu rannsóknina fyrir innanríkisráðuneytið árið 2014. En í henni kom meðal annars fram að þriðjungur þeirra sem kusu ekki sagðist einfaldlega ekki nenna að kjósa. Tveir þriðju töldu líklegra að þeir kysu ef hægt væri að kjósa rafrænt og rúmur helmingur ef persónukjör væri í boði.

Ólafur bendir á að minnkandi kjörsókn sé alþjóðlegt vandamál og að erlendir ríkisborgarar kjósi ekki í jafn miklum mæli og innfæddir. En eins og Fréttablaðið hefur greint frá þrefaldaðist fjöldi útlendinga á kjörskrá með rýmkun kosningalaga um áramót. Ýmis framboð hafa reynt að höfða til þessa hóps en sveitarfélögin og hið opinbera hafa lítið sem ekkert gert til að virkja erlenda ríkisborgara til lýðræðisþátttöku.

„Ef vilji stendur til að halda uppi skárri kjörsókn, þá þarf að gera átak til að reyna að fá erlenda ríkisborgara til að kjósa,“ segir Ólafur.

Kjörsóknin í ár var tæp 63 prósent og meira en 100 þúsund manns kusu ekki. Í Reykjanesbæ var kjörsóknin 47,5 prósent.