Innflutningsverðmæti eldsneytis féll um rúmlega 49 prósent á árinu 2020. Kemur þetta fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands. Árið 2019 var flutt inn eldsneyti fyrir tæplega 94 milljarða króna en á árinu 2020 var sú tala aðeins tæplega 48 milljarðar.

Finnbogi Gunnarsson sérfræðingur í utanríkisverslun hjá Hagstofunni segir þessa breytingu skýrast að langstærstum hluta af hruni í innflutningi á þotueldsneyti. Heimsmarkaðsverð á olíu spilar þarna einnig rullu. „Olíuverð hækkaði aðeins í lok árs en það var lækkun á eldsneytisverði milli ára,“ segir hann.

Eldsneytissala á bifreiðar lækkaði aðeins um 4 prósent, úr 362 þúsund rúmmetrum í 347 þúsund. Hrun í komu ferðamanna var að mestu leyti bætt upp með auknum ferðalögum Íslendinga innanlands.