Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur líklegt að óbreyttu að einungis lítið brot af þjóðinni verði bólusett fyrir COVID-19 fyrir lok næsta árs. Hann segir það mikið áhyggjuefni að enginn af þeim samningum sem Ísland hefur undirritað við lyfjafyrirtækin Pfizer, Moderna og AstraZeneca innihaldi afhendingardagsetningar.

„Það hefur bara verið samið um magn en ekki um afgreiðslutíma,“ segir Kári. „Það eru engar dagsetningar í þessu. Þetta byggir náttúrulega á samningum Evrópusambandsins og enn einu sinni virðist Evrópusambandið vera að klúðra málum. Ef svo heldur fram sem horfir, þá er hætta á því að við verðum ekki búin að bólusetja nema pínulítinn hundraðshluta af þjóðinni í lok næsta árs,“ segir Kári.

Kári Stefánsson

Fyrstu tíu þúsund skammtarnir af bóluefni BioNTech og Pfizer komu til landsins í vikunni. Samkvæmt lista fréttastofu Bloomberg hafa íslensk stjórnvöld nú þegar tryggt sér 435 þúsund skammta af bóluefni. Samningur við Moderna um 64 þúsund bóluefnaskammta var undirritaður í gær. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra vildi ekki veita Fréttablaðinu viðtal og vísaði aðstoðarmaður ráðherra í fréttatilkynningu sem send var til fjölmiðla. Þar er ekki minnst á neinar dagsetningar.

„Það er furðulegt að hlusta á fulltrúa heilbrigðismálaráðuneytisins gefa út yfirlýsingar um að við séum búin að tryggja nægjanlega mikið bóluefni þegar það lítur út fyrir að þetta nægjanlega mikla bóluefni komi ekki fyrr en 2022,“ segir Kári og bætir við að ekki sé heilbrigðisráðuneytinu um að kenna.

„Þessi staða er því að kenna að við eins og hin Norðurlöndin ákváðum að vera samferða Evrópusambandinu og Evrópusambandið klúðraði þessu. Það var eðlilegt að við færum í hóp með hinum Norðurlandaþjóðunum, það hefur oft reynst okkur gæfuríkt spor, en við erum bara því miður á þeim stað að Evrópusambandið klúðraði þessu. Við verðum að horfast í augu við það og ekki reyna að sannfæra okkur og aðra um að þetta sé allt í lagi, því þetta er ekki í lagi.“

Kári segir nauðsynlegt að bregðast við stöðunni strax og þurfi Ísland að leita að bóluefni með öðrum samningum en í gegnum ESB. „Við verðum að leita úti um allt og við megum ekki núna halda því fram að það sé lífsbjargarspursmál að halda þennan samning við Evrópusambandið því það er búið að gera í buxurnar,“ segir Kári.

„Ef heilbrigðismálaráðuneytið getur upplýst um eitthvað annað og sýnt fram á að ég hafi rangt fyrir mér, þá yrði ég mjög glaður. Þetta er eitt af þeim augnablikum sem ég vildi að ég hefði rangt fyrir mér.“

Kári segir það afar mikilvægt að spjótunum sé ekki beint að heilbrigðisráðuneytinu í þessum efnum enda séu mistökin fólgin í að treysta ESB en það breyti því ekki að það sé rangt að hrósa sigri. „Þau gerðu þennan samning í góðri trú um að Evrópusambandið vissi hvað það væri að gera. Að vissu leyti hef ég samúð með heilbrigðismálaráðuneytinu út af þessu en mér finnst óskynsamlegt af ráðuneytinu að gefa í skyn að þetta sé allt í lagi,“ segir Kári. Fréttablaðið reyndi eins og áður segir ítrekað að ná í heilbrigðisráðherra vegna málsins.