Haustlitir í íslenskri náttúru eru óvíða fallegri en í Þórsmörk, enda skartar hún stæðilegum birkiskógi sem tekur á sig alls kyns litabrigði þegar kólna tekur í veðri. Vegna nálægðar við jökla eru veðrabrigðin þarna hröð og því verður litaveislan af dýrari gerðinni. Í Þórsmörk bjóðast óteljandi gönguleiðir sem ekki eru síður spennandi í haustlitum en að sumri til. Vinsælar gönguleiðir liggja upp úr Langadal á Valahnúk eða eftir Slyppugili, en sunnan Krossár í Goðalandi má ganga inn Strákagil, eftir Kattahryggjum eða upp á Útigönguhöfða. Innar í Mörkinni leynast síðan fáfarnari gönguleiðir eins og Litfarahringur sem vert er að gefa gaum. Úr Básum er ekið eftir torfærum jeppaslóða sunnan megin Krossár uns komið er að Tungukvísl.

Kletturinn Göltur er áberandi kennileiti í Teigstungum. Í baksýn er þríhyrningslaga Litfari.
ÓMB

Hún er illa væð og því liggur oftast yfir hana göngubrú en annars má komast yfir hana akandi. Handan Tungukvíslar er stigið inn í töfraveröld Teigstungna, afskekkt svæði þar sem ekki er lengur beitt sauðfé. Stefnan er sett á upptök Krossár og er gengið meðfram kletti sem kallast Göltur. Handan Krossár blasir við þverhníptur Búðarhamar en síðan er komið að bröttum en hratt hörfandi Krossárjökli. Þarna er haldið varlega upp hlíðar meðfram skriðjöklinum uns komið er að hrygg sem kallast Eggjar, en handan hans eru Teigstungur. Þarna er frábært útsýni yfir Þórsmörk og vesturhluta Mýrdalsjökuls og nálæga skriðjökla hans. Sjálfur Litfari er skammt undan, litríkur klettaveggur, sem stendur undir nafni og stingur skemmtilega í stúf við umhverfið. Gengið er niður Teigstungur uns komið er að aflöngum grashrygg sem kallast Guðrúnartungur. Samkvæmt gamalli þjóðsögu er tilurð nafnsins sú að eitt sinn hafi bændur rekið fráfærulömb sín inn á Teigstungur og var með í för 12 ára niðursetningsstúlka sem hét Guðrún. Varð hún viðskila við rekstrarmenn í mikilli þoku og þeir fljótir að telja hana af. Við leitir um haustið fannst hún hins vegar óvænt á lífi við tungurnar sem nú bera nafn hennar og með henni fráfærulömbin. Hafði hún dregið fram lífið um sumarið á rótargróðri og súrum en líka hvönn og berjum. Var sagt að lömbin hefðu forðað henni frá því að verða vitstola, en náttúrufegurð Teigstungna hefur örugglega hjálpað til líka. Það geta þeir vottað sem heimsækja þetta einstaka og fáfarna svæði.

Í klettavegg Litfara bregður fyrir ýmsum litum framan við hvítan Mýrdalsjökul og mosavaxnar Teigstungur.
ÓMB