„Vilníus mun án efa geta fagnað afmæli sínu með glæsibrag þótt borgarstjóri Reykjavíkur sé ekki mættur á staðinn í eigin persónu,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.

Kolbrún gagnrýndi í borgarráði í gær að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ætlar með aðstoðarmanni sínum til Vilníus í Litáen þar sem fagna á 700 ára afmæli borgarinnar í næstu viku.

„Svona ferð er alveg álitamál í ljósi slæmrar fjárhagsstöðu borgarinnar,“ bókaði Kolbrún í borgarráði í gær.

Í greinargerð borgarstjóra vegna ferðarinnar segir að borist hafi ósk um að hann myndi taka þátt í alþjóðlegri ráðstefnu þar sem borgarstjórar í Evrópu og víðar deili „árangri af athyglisverðum verkefnum, sem aðrar borgir geta lært af“, eins og það er orðað.

„Borgarstjóri heimsótti Vilnius, Riga og Tallinn í mars á síðasta ári til að sýna táknrænan stuðning við borgirnar í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu,“ segir borgarstjórinn í bréfi sínu.