Sýningin er haldin í allt sumar á Mótorhjólasafni Íslands sem staðsett er skammt frá flugvellinum á Akureyri. Mótorhjólasafnið er opið á hverjum degi milli klukkan 13–17 og þá líka um helgar. Á sýningunni má sjá rúman tug mótorhjóla sem Hilmar hefur gert upp en alls hefur hann gert upp um fimmtíu mótorhjól gegnum tíðina. Flest hafa þessi mótorhjól fundist hér á landi, annaðhvort af honum sjálfum eða öðrum og risið upp úr öskustónni eftir að Hilmar hefur farið höndum um þau. Meðal gripa á sýningunni eru Velocette MAC 350 1936, Federation 1936, Ariel NH350 1938, Matchless G8L 1946, New Hudson 1946, Victoria 50 1960, Simson 50 1963, BSA Thunderbolt 1972 og Kawasaki GPz 900 1986.

Svona leit hjólið út seint á níunda áratug síðustu aldar þegar það kom í hendur þeirra Hilmars og Steina.

Elsta hjólið á sýningunni er Velocette MAC 350 frá 1936. Hilmar eignaðist það 2019 en það hafði reyndar farið um hendur hans rúmum tveimur áratugum áður þegar vinur hans Steini Tótu byrjaði uppgerð á því. Þá voru gjarðir teinaðar, gerður upp mótor og grindin máluð en svo fór það í biðstöðu. Saga Velocette hjólsins er nokkuð óljós en líklega kom það nýtt til Vestmannaeyja og var þar í eigu Sölva nokkurs.

Velocette MAC 350 hjólið kom nýtt til landsins 1936 og lítur nú aftur eins vel út 85 árum seinna.

Eftir stríð er hjólið komið til Siglufjarðar en þar lendir það í umferðaróhappi rétt fyrir 1950. Helgi Ólafsson kaupir það eftir tjónið og flytur það með fiskiskipinu Súðinni til Raufarhafnar. Ragnar Svanholt á Þórshöfn eignast hjólið kringum 1954 og á það í eitt ár, en svo fær Jóhann á Ormslóni hjólið sem notar það í mörg ár. Þröstur Víðisson fréttir svo af gömlu mótorhjóli á Ormslóni 1988 og eignast það eftir samtal við Jóhann bónda. Hjólið gerði Hilmar upp 2019–2020 og talsvert fór af nýjum hlutum í hjólið, ekki síst hið verklega pústkerfi sem undir því er.