„Þetta er ótrúlega áhugaverður arkitektúr og staður,“ segir myndlistarmaðurinn Sigurður Atli Sigurðsson sem ásamt Olgu Lilju Ólafsdóttir stendur að listagalleríinu Y sem sem reka á næstu mánuði í gömlu bensínstöð Olís í bílakjallaranum í Hamraborg í Kópavogi.

Olga stóð meðal annars að stofnun Ásmundarsalar sem einkarekins sýningarsalar í gamla Listasafni ASÍ. Sigurður Atli segir það ekki síst hafa verið arkitektúr Benjamíns Magnússonar sem teiknaði Hamraborgina sem dró þau Olgu að staðnum.

Sjálfur kveðst Sigurður alltaf hafa haft áhuga rýminu. Hamraborgin minni hann á Marseille þar sem hann dvaldi í fimm ár í mastersnámi. Arkitektúrinn sé í anda hins franska „cite“ þar sem allt líf nútíma borgarmannsins er samþætt í eina byggingu. „Við lítum dálítið þannig á að við séum að taka upp þessa útópísku hugmyndafræði sem býr í arkitekúrnum, að geta boðið upp á myndlist í nærsamfélaginu,“ segir hann.

Þarna segir Sigurður einnig koma til sögunnar arkitektúr bensínstöðvarinnar sjálfrar sem hafi þrjár gluggahliðar, sem sé öfugt við hefðbundna listsýningarsali. Þetta þýði meðal annars að þótt aðeins verði opið inn í húsnæði tvo eftirmiðdaga í viku geti áhorfendur haldið áfram að njóta listaverkanna í galleríinu utan frá. „Þetta er mjög flott sýningarrými fyrir þrívíð verk og á þau verður fókusinn,“ segir hann.

Jón Árni Ólafsson sviðsstjóri smásölusviðs Olís segir um að ræða mjög ánægjulegt samstarfsverkefni.

Bensínstöð Olís undir Hamraborg var opnuð árið 1980. Versluninni var lokað um síðustu áramót en sölu á eldsneyti áfram haldið áfram í sjálfsafgreiðslu undir merkjum ÓB. Húsnæðið hefur því staðið autt um skeið.

Sigurður segist þakklátur Olís fyrir að hafa verið til í samstarfið. „Það er mjög skemmtilegt tvist að þarna verður áfram fólk að dæla bensíni og þetta verður samlífi samtíma myndlistargallerís og bensínstöðvar,“ segir hann.

Jón Árni Ólafsson, sviðsstjóri smásölusviðs Olís, segir um að ræða mjög ánægjulegt samstarfsverkefni.

„Við kolféllum fyrir hugmyndinni og viljum endilega prófa og sjá hvort þetta mælist ekki vel fyrir. Við erum mjög dugleg í ýmsum samfélagslegum verkefnum og fannst þetta vera mjög skemmtilegur vinkill á það. Það getur vel verið að við útfærum þessa hugmynd nánar með einhverjum hætti,“ segir Jón Árni.

Galleríið verðir opnað eftir viku með sýningu á verkum Unu Bjargar Magnúsdóttur sem fékk hvatningarverðlaun Íslensku myndlistrarverðlaunanna.