Okkur líður vel hér, þetta er bjart og fallegt húsnæði sem passar vel við hugmyndafræði okkar“, segir Erna Pétursdóttir sem rekur með eiginmanni sínum Makake á Granda. Þau eiga einnig og reka vinsælan lítinn stað við Tryggvagötu, Ramen Momo. Þau stofnuðu hann fyrir fimm árum síðan.

Erna og Kunsang kynntust upphaflega á Indlandi, en Kungsang er frá Tíbet. Erna starfaði þar sem kennari og Kungsang var í listaskóla. Þau eiga tvö börn, 8 og 6 ára og líkar lífið vel á Íslandi.

„Okkur dreymdi alltaf um að opna stærri stað eins og Makake en við fórum okkur hægt. Við viljum leggja rækt við það sem við gerum. Þetta er ástríða og við byrjum smátt, förum okkur hægt. Það skilar sér í stöðugri rekstri, lægra verði til viðskiptavina og meiri gæðum,“ segir Erna frá. Þau aðhyllast slow food hugmyndafræðina sem felur í sér að velja staðbundið hráefni og auka meðvitund fólks um matarmenningu, þekkingu og hefðir.

Kunsang gerir sig reiðubúinn að sýna listina að setja saman fyllt smáhorn. Gyoza.
Sigtryggur Ari

„Reglulega kemur hingað eldra fólk sem man eftir Kaffi Granda og finnst gott að sitja hér inni og spila á spil og horfa á útsýnið. Það á góðar minningar héðan. Ég tek vel á móti því og spjalla við það og reyni að fá það til að prófa asískan mat,“ segir Kunsang.

Hönnnun staðarins og öll umgjörð ber þess merki að þau hafa lagt mikla vinnu og hugsun í staðinn. Veggina prýðir myndlist eftir bróður Ernu, Dag Pétursson. Matseðlarnir eru einnig skreyttir grafík eftir hann og bæklingur sem inniheldur fróðleik um fyllt smáhorn. Lesendur sjá dæmi um hönnuna í þessari grein í fróðleiksmolum um smáhornin. „Við leggjum mikið upp úr því að kynna þessar matarhefðir og viljum nota íslenska heitið smáhorn yfir dumplings,“ segir Erna. Við hönnun staðarins þá vildum við frekar nýta það sem var til frekar en að kaupa allt nýtt. Borðin eru úr kössum og ljósakrónurnar eru gerðar úr vín -og bjórflöskum. “

Staðurinn er opinn á kvöldin og í janúar stefna Erna og Kunsang á að opna verslun með hráefni í asíska matargerð sem þau framleiða á staðnum.

Heiti staðarins hefur skemmtilega tengingu við Japan, Makake eru japönsk apategund sem elska að baða sig í heitum uppsprettum og búa til snjóbolta. „Okkur fannst þessi tenging skemmtileg enda elsum við að sitja í heitum pottum í snjónum,“ segir Erna.

Fróðleikur um fyllt smáhorn:

Hargao Gufusoðin glær horn, stundum kölluð rækjuhúfur vegna lögunarinnar.

Gyoza Þetta eru fyllt smáhorn að japönskum hætti en uppskriftin er upprunalega kínversk (Í Kína eru þau kölluð jiaozi) og hún barst til Japan með japönskum hermönnum þegar þeir sneru heim úr siðari heimsstyrjöldinni. Þau eru brotin saman í þunnt deig, steikt og svo gufusoðin að lokum.

Mandu Kóresk smáhorn sem hægt er að fylla með öllu mögulegu. Yfirleitt eru í fyllingunni hakkað svínakjöt, nautakjöt, kál (eða kímtsjí, engifer og hvítlaukur. Fyrst eru hornin soðin og svo pönnusteikt ef vill.

Wonton Þessir bögglar eru settir ofan í súpu og eru yfirleitt minni en önnur fyllt horn. Þegar wonton er alveg soðið verður það glært og þá sést fyllingin svo maður veit hver hún er áður en maður bragðar á krásinni.

Shao Mai Þessi kínversku smáhorn eru borin fram sem smábitar. Þau eru upprunalega frá Mongólíu þar sem þau voru á matseðli tehúsa. Þau eru yfirleitt fyllt með svínakjöti, rækju, sveppum og vorlauk.

Momo Tíbetskar núðlur eru búnar til úr hveiti og vatni sem er hnoðað í deig. Yfirleitt er um að ræða hvítt hveiti og stundum er ögn af matarsóda eða brauðgeri bætt út í til að bæta áferðina.

Bao Opinbert heiti þessara kínversku smáhorna er baozi og menn hafa neytt þeirra í einhverri mynd allt frá þriðju öld tímatals okkar. Það má fylla þau með grænmeti eða með kjöti.

Gyoza, fyllt smáhorn að japönskum hætti.

Hér að neðan má sjá hvernig best er að setja smáhorn saman.

Kunsang er með skál af vatni sem hann notar til þess að líma smáhornin saman. Hann ákvað að gera Gyoza og með fyllingu með lambakjöti í. Það er hægt að nota ýmiskonar fyllingu í Gyoza, rækjur, grænmeti, svínakjöt, sveppi.

Hornin eru svo gufusoðin en þau má líka steikja.

Erna og Kunsang gera nokkrar tegundir af deigi á Makake, úr lífrænt ræktuðu hveiti, úr glútenlausu mjöli og kínversku hveiti. Deig í smáhorn er vanalega gert úr hveiti og sjóðandi vatni. Stundum er sett örlítið salt eða matarsódi í deigið. Hægt er að kaupa tilbúið smáhornadeig í mörgum asískum matverslunum á höfuðborgarsvæðinu.

Ef að smáhornin eru gufusoðin eru notaðar bastkörfur. Þá er oftast settur gataður smjörpappír í botn körfunnar, eldunartíminn er um það bil fimmtán mínútur. Ef að smáhornin eru pönnusteikt þá eru þau steikt á pönnu í 2-3 mínútur, þá er settur 1 dl af vatni á pönnuna og soðið áfram með 3 mínútur með loki yfir.