Listi yfir kaupendur í útboði Íslandsbanka 22. mars, er ríkið seldi samtals 22,5 prósenta hlut í bankanum, var birtur í gær.

Meðal kaupenda er faðir fjármálaráðherra, Benedikt Sveinsson, sem keypti hlut fyrir um 54 milljónir króna í gegnum félag sitt Hafsilfur. Á meðal stærri kaupenda er Eignarhaldsfélagið Steinn ehf. sem er í eigu Þorsteins Más Baldvinssonar í Samherja. Hann keypti fyrir tæpar 300 milljónir í útboðinu.

Guðbjörg M. Matthíasdóttir, aðaleigandi Ísfélagsins í Vestmannaeyjum og einn eigenda Morgunblaðsins, keypti fyrir tæpan hálfan milljarð króna.

Rafkaup keypti fyrir um 270 milljónir króna en Sólveig Nanna Hafsteinsdóttir er skráður eigandi. Félagið Íshóll ehf. sem er í eigu fjárfestisins Stefáns Ákasonar keypti einnig fyrir um 270 milljónir í bankanum.

Pálmi Haraldsson í Fons keypti fyrir um 224 milljónir í gegnum fyrirtæki sitt Sólvelli. Jóhann Halldórsson keypti fyrir um 180 milljónir í gegnum félag sitt s8 ehf.

Hjónin Bogi Þór Siguroddsson og Linda Björk Ólafsdóttir, sem eiga fyrirtækið Jóhann Rönning, keyptu fyrir tæplega 1.170 milljónir í gegnum félag sitt Bóksal ehf. Þau eiga nú alls 2,5 prósenta hlut í Íslandsbanka.

Þórður Már Jóhannesson fjárfestir keypti í gegnum tvö félög, Brekku Retail Ehf. og Fjárfestingarfélagið Brekku, fyrir alls um 108 milljónir.

Meðal annarra kaupenda, sem alls voru 209 félög og einstaklingar, má nefna félagið Klambratún sem er í eigu Ólafs Andra Ragnarssonar, Íslenska tónlist ehf. sem er í eigu Sölva Blöndal og Sigurðar Reynis Harðarsonar, og fjárfestinn Halldór Karl Högnason sem keypti í gegnum félagið Valshöfða.

Heildarsalan á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka færði ríkinu 52,7 milljarða króna. Ákveðið var að miða við gengið 117 krónur á hlut þó að verð hvers hluta í Kauphöllinni væri þá 123 krónur. Síðan þá hefur gengið hækkað umtalsvert og var í lok dags í gær 129 krónur á hlut sem er ríflega tíu prósenta hækkun frá sölunni fyrir rúmum tveimur vikum. Hlutur þeirra sem keyptu þá hefur þannig alls hækkað um 5.300 milljónir króna.