Sósíalistaflokkur Íslands hefur birt framboðslista flokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar sem fara fram 25. september. Helga Thorberg, leikkona og garðyrkjufræðingur, leiðir listann. Í öðru sæti er Árni Múli Jónsson, mannréttindalögfræðingur og framkvæmdastjóri Þroskahjálpar. Þriðja sætið skipar Sigurður Jón Hreinsson, vélahönnuður og bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ.
Listanum er stillt upp af slembivöldum hópi meðal félaga flokksins. Samkvæmt tilkynningu frá flokkunum er það talið skila betri árangri en hefðbundnar leiðir við uppröðun á lista.

„Græðgi, taumlaus neysla og virðingarleysi við móðir jörð er á góðri leið með að útrýma öllu lífi á jörðinni,“ segir Helga. „Það er á ábyrgð stjórnvalda að grípa til aðgerða til að sporna við eyðileggingunni. Það er hins vegar okkar ábyrgð að velja þá sem fara með valdið. Þess vegna þurfum við stjórnvöld sem eru tilbúin til að fara í þær róttæku breytingar, stjórnvöld sem eru ekki að þjóna auðvaldinu heldur almenningi. Með því að fylkja okkur um stefnu Sósíalistaflokksins, veljum við efnahagskerfi sem byggir á lífvænlegum gildum fyrir fjöldann – en ekki sérhagsmunum fárra. Róttækra aðgerða er þörf – ég ætla að leggja því lið.“
„Það er okkar að tryggja að börnin okkar og barnabörn eigi lífvænlega framtíð. Það verður að grípa til róttækra aðgerða til að koma í veg fyrir hörmulegar afleiðingar af þeim lífsmáta sem kapítalisminn hefur leitt yfir heimsbyggðina og birtast okkur í fréttum á hverjum degi,“ segir Helga.
„Tækifærin í samfélaginu okkar eiga að vera jöfn samkvæmt lagabókstafnum en þau eru það bara alls ekki í raun“ segir Árni Múli. „Allt of margir, stórir hópar fólks, þurfa að þola margs konar og mikla mismunun og hafa mjög skert tækifæri á flestum sviðum. Þessari mismunun og ójöfnuði sem af henni leiðir fylgir síðan virðingarleysi og ömurlegt og niðurlægjandi valdleysi fólks sem hefur ekkert til saka unnið annað en að vera fatlað eða fátækt eða af erlendum uppruna eða bara af einhverjum ástæðum ekki í náðinni hjá sem valdið hafa í krafti pólitísks valds og/eða auðs. Við bara verðum að breyta þessu og hafa jöfn tækifæri allra, mannréttindi og hagsmuni alls almennings ávallt að leiðarljósi og snúa af braut misskiptingar og sérhagsmunagæslu, með allri þeirri spillingu sem hún þrífst á og elur af sér.“
„Á hinum Norðurlöndunum er samfélagsmódel sem tryggir fólki bestu lífskjör sem þekkjast á jörðinni og það er sósíalisma að stórum hluta að þakka,“ segir Sigurður Jón Hreinsson, sem er í þriðja sæti. „Okkar samfélag hefur á liðnum árum færst til hægri frá þessu norræna módeli og þeirri þróun vill ég snúa við.“
Listi Sósíalistaflokksins í Norðvesturkjördæmi:
1. Helga Thorberg, leikkona og garðyrkjufræðingur
2. Árni Múli Jónasson, mannréttindalögfræðingur og framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
3. Sigurður Jón Hreinsson, véliðnfræðingur og bæjarfulltrúi
4. Aldís Schram, lögfræðingur og kennari
5. Bergvin Eyþórsson, þjónustufulltrúi og varaformaður Verkalýðsfélags Vestfjarða
6. Guðni Hannesson, ljósmyndari
7. Ágústa Anna Ómarsdóttir, lyfjatæknir
8. Sigurbjörg Magnúsdottir, eftirlaunakona
9. Jónas Þorvaldsson, sjómaður
10. Valdimar Arnþór Anderssen, heimavinnandi húsfaðir
11. Guðrún Bergmann Leifsdóttir, listakona
12. Magnús A. Sigurðsson, minjavörður vesturlands
13. Dröfn Guðmundsdóttir, kennari
14. Indriði Aðalsteinsson, bóndi
15. Fjóla Heiðdal Steinarsdóttir, háskólanemi
16. Finnur Torfi Hjörleifsson, lögfræðingur, eftirlaunamaður