Lista­verki þeirra Steins Loga Björns­sonar og Arons Bjark­lind var stolið og hvorki hefur tangur né tetur sést af því í rúmar tvær vikur.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Steinn að um sé að ræða afar hjart­fólgið verk­efni sem strákarnir hafi eytt öllu sumrinu í. Þeir vilja því ólmir að verkið komi í leitirnar og biðla til net­verja um að­stoð. Um er að ræða rúm­lega 150 kílóa kerru sem skreytt var með lista­verkum. Ljóst er að enginn hægðar­leikur hefur verið að stela kerrunni, sem er rúm­lega 2x2 metrar og 2,5 metrar á hæð.

Henni var stolið þar sem hún lá við veitinga­staðinn Hornið í mið­bæ Reykja­víkur og hefur lög­regla gefist upp á rann­sókn málsins, þar sem engar vís­bendingar hafa borist.

Strákarnir hafa unnið í skapandi sumar­störfum hjá Hinu húsinu og er kerran hluti af lista­verk­efni þeirra. Þeir hafa frá upp­hafi fundið efni­við úr nær­sam­fé­lagi sínu og fundu þeir kerruna á þriðju viku verk­efnisins, í Laugar­nesi. Fólki hefur svo boðist að taka þátt og vinna að list­sköpun með strákunum á mis­munandi stöðum í borginni.

Mikið afl til að færa kerruna

„Þetta er rosa­lega stór kerra, svo við skildum hana eftir yfir helgi, á föstu­degi. Á mánu­deginum var allt saman svo horfið og við höfum enga hug­mynd hvar þetta er niður­komið,“ segir Steinn.

Hann segir þá strákana hafa rætt við marga aðila, sem þeim hafi dottið í hug að hafi hand­aflið í að færa svo stóra kerru.

„Við töluðum til dæmis við Sorpu og svo ræddum við við starfs­fólkið í Lands­bankanum, en enginn hafði séð neitt. Þetta er al­gjör leyndar­dómur,“ segir hann.

„Við fundum kerruna í rauninni á þriðju viku, á fjórum hjólum, þar sem hún var yfir­gefin. Svo byggðum við bara ofan á hana og eyddum þremur vikum í hana. Hún var orðin rosa­lega stór og veg­leg og fullt af verkum á þessu,“ segir Steinn.

Þeir eyddu tveimur vikum fyrir utan Iðnó þar sem gestum og gangandi bauðst að mála með þeim og skapa list. Strákarnir hafi lagt sig fram um að skapa rými fyrir alla til þess að vera skapandi með mis­munandi hætti.

„Við sköpuðum alltaf rými fyrir fólk til þess að vilja skapa eitt­hvað. Við höfðum til dæmis hljóð­færi allt í kring og tókum upp tón­list á sama tíma á kasettur og spiluðum þær. Gerðum fólki kleyft að leika sér með bolta, spila á spil, þannig því leið aldrei ó­þægi­lega í rýminu, því allt var opið og fólk gat fengið inn­blástur all­staðar í kringum sig.“

Dróu kerruna með handafli í miðbæinn

Kerran hafi því verið af­rakstur margra vikna verk­efnis og segir Steinn spurður að það sé sárt að verkið hafi horfið.

„Því þetta er auð­vitað hrika­lega per­sónu­legt. Það er mikil saga á bak­við hana. Við drógum hana til dæmis alla Sæ­brautina frá Laugar­nesinu og að Iðnó,“ segir Steinn. Mikil vinna hafi því aug­ljós­lega farið í verkið.

„Við notuðum bara stórt reipi og einn togaði á meðan einn var fyrir aftan og ýtti. Þannig þetta var bara hand­afl og mikið kú­reka­ævin­týri,“ segir hann brattur.

Strákarnir eru með Insta­gram síðu sem helguð er verk­efninu og biðla til net­verja um að senda sér á­bendingar, viti þeir hvar verkið gæti leynst.

„En þetta er svo­lítið svaka­legt. Við höfum fengið mikla sam­úð frá fólki og margir að reyna að að­stoða okkur við að finna verkið aftur, benda okkur á staði þar sem það gæti leynst og svona.“