Áður en ráðist var í sölu á 35 prósenta hlut í Íslandsbanka fékk ríkissjóður 203 listaverk að gjöf frá bankanum sem varðveitt eru á Listasafni Íslands.

Ljóst er að kostnaður við varðveislu og geymslu listaverkanna mun falla á listasafnið sem er í eigu íslenska ríkisins.

Samkvæmt lögum um opinber fjármál er ríkisaðilum ekki heimilt að þiggja gjöf sem gefin er með kvöðum eða skilyrðum sem geta haft í för með sér viðvarandi útgjöld fyrir ríkissjóð án heimildar í fjárlögum.

Í nýju frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2021 er því lögð til ný heimild til að þiggja gjöfina, listaverkin, og gera Listasafni Íslands kleift að varðveita þau.

Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, óskaði eftir því í upphafi árs að listaverk í eigu bankanna yrðu þjóðareign ef hlutur íslenska ríkisins í bönkunum yrði seldur.

„Mik­il­vægt er að í­trek­a að list­a­verk­a­eign bank­ann­a er ekki til kom­in sem fjár­fest­ing í á­hætt­u­dreif­ing­u á eign­um bank­ann­a eða sem á­vöxt­un­ar­leið,“ skrif­ar Harp­a í bréf sem hún sendi Lilju Alfreðsdóttur, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, í lok janúar.

Sagði hún þar af leiðandi ekki um raunverulegt eignasafna bankanna að ræða líkt og sjóði eða aðrar fjárfestingar.