Listaverk á horni Freyjugötu og Óðinsgötu er horfið í annað sinn á stuttum tíma. Í fyrra skiptið var það fjarlægt af borgarstarfsmönnum, en fyrir heppni tókst að bjarga því frá förgun.

„Ég vissi ekki að þetta yrði svona stuðandi. Það hafa margir verið að pirra sig á þessu, nágrannar hafa kvartað og aðrir leikið sér á því. Ég er búin að þurfa að gera við það nokkrum sinnum. Nú er það bara horfið,“ segir Ólöf Bóadóttir, listamaður.

Verkið heitir Ferró skiltagerð og var tómt vindskilti með langa fætur, sem skorðaðir voru undir bekki á torginu. Það er hluti af sýningunni Skúlptúr í formi hárbolta sem fer fram í sýningarrými Harbinger, hinum megin við götuna. „Vindskiltin eru út um allt og það er allt í lagi ef þau eru neytendavæn: verkið inniheldur engan kapítalískan áróður. Mér finnst svo fyndið að jafn klossaður hlutur og vindskilti er, sé notaður til að stýra hegðun fólks í dag þegar upplýsingaöflun gerir algóriþmum kleift að sinna því á mun hlédrægari hátt.“

Verkið var sett upp fyrir þremur vikum og átti að standa fram yfir helgi, en þetta er síðasta sýningarhelgin. Skúlptúr í formi hárbolta er opin á föstudag, laugardag og sunnudag á milli klukkan 14 og 17 í Harbinger á Freyjugötu 1.

Í fyrra skiptið sem verkið hvarf höfðu starfsmenn borgarinnar verið að verki, þó svo að listaverkið sé með leyfi frá borgaryfirvöldum. „Þeir tóku það niður,“ segir Ólöf og hlær hátt. „Ég fékk símtal frá Steinunni Önnudóttur sem rekur sýningarrýmið og fór í gegnum fimm skref sorgarinnar á augnabliki.“

Hafði kunningi Ólafar fyrir tilviljun séð borgarstarfsmenn saga verkið niður með slípirokk. „Verkið stóð í bútum við gám fyrir málma. Reiðin rann samt fljótt af mér, þar sem þeir voru sérlega indælir. Við drifum verkið inn á verkstæði til þeirra þar sem ég sauð það aftur saman.“

Í svari frá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar segir að mistökin séu afskaplega leiðinleg.

Ólöf fékk góðar sárabætur frá borginni, þar á meðal aðstoð við að laga verkið og koma því aftur fyrir. „Ég innti eftir því hvort ekki vantaði starfskraft á verkstæðið og fékk símtal klukkutíma síðar, þar sem mér var boðin staða. Ég vinn nú við að gera borgina snyrtilega yfir sumartímann.“

Nú er búið að taka verkið niður aftur, í þetta skipti var það ekki borgin. Ólöf hefur engan ákveðinn grunaðan, en er með kenningar. „Líklegt er að einhverjum nágrannanum hafi ekki þótt mikið til verksins koma og tekið málin í eigin hendur.“