Bandalag íslenskra listamanna (BÍL) segir að grafalvarleg staða ríki hjá listamönnum nú þegar útlit sé fyrir að næstu mánuðir og jafnvel ár verði skilyrtir af reglum sem hindri allt þeirra starf.

Kallar forseti bandalagsins eftir því að stjórnvöld gefi þeim gaum og komi til móts við listamenn líkt og gert hafi verið í tilfelli íþróttahreyfingarinnar.

„Undanþágur um nálægðartakmarkanir er þó jafn sjálfsagt að veita listamönnum sem íþróttamönnum, því slík undanþága er forsenda vinnu margra greina, sérstaklega sviðslista og tónlistarmanna,“ segir í opnu bréfi BÍL.

Þolinmæðin á þrotum

Þar segir að listamenn hafi fram að þessu beðið þolinmóðir eftir að faraldrinum réni og þeir fái tækifæri til að hefja starfsemi sína að nýju.

„Listamenn hafa ekki farið fram á undanþágur eða að horn regluverksins væru rúnuð af með einhverjum hætti til að halda úti listsköpun.“

Samfélagslegt gildi og hlutverk listarinnar sé mikilvægt en efnahagslegur skaði af þessu ástandi sé ekki síður gríðarlegur.

Um 8% starfi við skapandi greinar

Að sögn BÍL vinnur tæplega 8% vinnandi fólks í landinu við listsköpun og skapandi greinar. Mörg fyrirtæki sem byggi afkomu sína á starfi listamanna rói nú lífróður til að halda rekstri sínum gangandi.

Þá hafi listamenn fundið fyrir því að regluverk vinnumarkaðarins sé þeim óhagstætt og að úrræði gagnist þeim ekki til jafns við aðra á vinnumarkaði.

„Svo nú þegar listamenn voru að vonast til að geta farið að reima á sig skóna og hefja störf blasir við sá veruleiki að næstu mánuðir, jafnvel ár, verði alvarlega skilyrtir af reglum sem hindrar allt þeirra starf.“

Heimta að störf þeirra séu metin að jöfnu

Um sé að ræða grafalvarlega stöðu fyrir listamenn og fjölskyldur þeirra.

„Listamenn eiga heimtingu á að störf þeirra séu metin að jöfnu í heildarmyndinni og við ákvarðanir í þessum efnum. Hæfileikar, menntun og þekking þessa fólks leggur þau verðmæti til samfélagsins að það er sjálfsögð krafa að það framlag sé tekið inn í reikninginn við ákvarðanir í framhaldinu.“

Rætt hefur verið um stofnun samstarfsvettvangs í tengslum við faraldurinn þar sem ákvarðanir verði teknar og aðgerðir skipulagðar.

Ef til þess kemur óskar FÍL eftir því að fulltrúar menningar og listsköpunar fái sæti við það borð.