Í janúar gaf menningar- og viðskiptaráðuneytið út að gripið yrði til öflugra viðspyrnuaðgerða og 450 milljónum varið í þágu tónlistar- og sviðslistageiranna vegna kóróna­veiru­faraldursins. Aukaúthlutun yrði auglýst á vormánuðum.

Guja Sandholt, sjálfstætt starfandi söngkona, spyr um stöðu málsins í stöðuuppfærslu á Facebook og merkir við Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra. Í athugasemd við færsluna kemur fram að SELF, samstöðuhópur einyrkja og lítilla fyrirtækja í ferðaþjónustu, sé í sömu stöðu. Enn sé ekki búið að opna fyrir umsóknir úr þeim hópi.

„Við erum búin að senda fjölda pósta á efnahags- og viðskiptanefnd og alla alþingismenn og ráðherra vegna tafa á því að þessir styrkir komi til afgreiðslu,“ segir Jóna Fanney Svavarsdóttir, rekstraraðili í ferðaþjónustu á landsbyggðinni og meðlimur í SELF. Lilja ráðherra hafi ekki svarað einum einasta tölvupósti frá hópnum né lagt sig eftir því að heyra í fólkinu. „Viðspyrnuaðgerðir eru því miður, einmitt núna þegar undirbúningur viðspyrnu ætti að standa sem hæst í samfélaginu, bara fallegar áætlanir í orði en ekki á borði.“

Í svari mennta- og viðskiptaráðuneytisins til Fréttablaðsins segir að frumvarp um aukið fjármagn fyrir starfslaun listamanna í gegnum launasjóð sviðslistafólks liggi fyrir á Alþingi. Ekki sé búið að afgreiða það og því ekki hægt að verða við óskum um úthlutanir að svo stöddu. Upplýsingafulltrúi ráðuneytisins segist því miður ekki vita hvenær þingið taki málið til afgreiðslu.