Lista­manna­laun hækkuðu upp í 428.420 kr. á mánuði 1. janúar 2022 til sam­ræmis við launa- og verð­lags­hækkun fjár­laga 2022 en þau voru 409.580 í fyrra. Gert er ráð fyrir að launin hækki enn frekar á árinu vegna á­kvörðunar ráð­herra um að hækka fram­lög til launa­sjóðs lista­manna um 100 milljónir króna í fjár­lögum 2022.

„Þetta er ekki að mínu mati há tala og við stefnum að því á þessu kjör­tíma­bili að þetta hækki núna í nokkrum skrefum af því ég tel að það sé mikil­vægt fyrir lista­fólkið okkar og þetta kerfi hefur bara reynst mjög vel. Ríkis­stjórnin er öll, myndi ég segja, á þessari línu að styðja betur við þetta kerfi,“ segir Lilja Dögg Al­freðs­dóttir, ferða­mála-, við­skipta- og menningar­mála­ráð­herra, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Lista­manna­launum ársins 2022 verður út­hlutað á dögunum og þeir lista­menn sem hljóta út­hlutun fá launa­hækkun upp á rúm­lega 81.000 er launin hækka upp í 490.920 kr. á mánuði. Að sögn ráð­herra kemur til greina að endur­skoða fyrir­komu­lag launa­sjóðsins enn frekar.

„Við höfum líka verið að líta til þess jafn­vel að breyta að­eins um­gjörðinni þannig að við séum með sér­stök lista­manna­laun fyrir yngri lista­menn og gera kerfis­breytingar en það er ekki alveg búið að sam­þykkja það,“ segir Lilja.

Ný tæki­færi fólgin í sam­einingu ráðu­neyta

Nokkuð hefur verið um upp­stokkun á ráðu­neytum hjá nýrri ríkis­stjórn, til að mynda þá hafa menningar­mál og við­skipta­mál verið sam­einuð undir einum hatti. Að sögn Lilju eru mörg tæki­færi fólgin í þessari sam­einingu.

„Það sem gerist auð­vitað með því að það sé verið að setja þetta nýja menningar- og við­skipta­ráðu­neyti á lag­girnar, að þá er bara allt sem tengist menningu og listum komið á einn stað. Endur­greiðslu­kerfin fyrir bók­menntirnar, endur­greiðslurnar varðandi kvik­myndir, hljóð­ritun, þannig að nú erum við með til að mynda með kvik­mynda­mið­stöð og stór endur­greiðslu­kerfi allt á einum stað sem býr til ný tæki­færi.“

Á síðasta kjör­tíma­bili var ein­blínt tölu­vert á bók­menntir meðal annars með því að hækka fram­lög í bóka­safns­sjóð rit­höfunda og af­nema virðis­auka­skatt á ís­lenskum bókum. Lilja segir að á þessu kjör­tíma­bili verða sér­stak­lega ein­blínt á tón­list og kvik­myndir.

Launin hækka en mánuðirnir standa í stað

Mánaðar­fjöldi lista­manna­launa hefur verið fastur í 1.600 mánuðum á ári síðan 2009. Árið 2021 var þó út­hlutað 2.150 mánaðar­launum, með 550 mánaða aukningu vegna far­aldursins. Lilja segir að ein­blínt verði á að hækka mánaðar­launin frekar en að fjölga mánuðum á kjör­tíma­bilinu.

„Það sem við munum frekar gera á þessu kjör­tíma­bili að fjölga jafn­vel ekki en vinna mark­visst að hækkun vegna þess að þegar lista­manna­launin eru ekki hærri en þetta eins og raun ber vitni, þá erum við svo­lítið að senda skila­boð inn í allan geirann.“

Lista­manna­launum er að­eins út­hlutað einu sinni á ári núna og ef lista­menn fá neitun á um­sókn sína þurfa þeir því að bíða í ár áður en þeir geta sótt um aftur. Lilja segir það vel geta komið til greina að út­hluta út sjóðnum oftar en einu sinni á ári. Þá segir hún ýmsar aðrar hug­myndir vera uppi um endur­skipu­lagningu launa­sjóðanna.

„Við settum af stað þessa vinnu og ef við nefnum nokkrar þá er það náttúr­lega bara að upp­hæð starfs­launanna hún hækki til sam­ræmis við sam­bæri­legar stéttir og við erum þegar byrjuð á því. Mið­gildi þeirra launa er 550.000 og þú sérð alveg að við eigum svo­lítið í land þar. Annað sem hefur verið nefnt er hvort að við fjölgum mánuðunum, þeim hefur ekki verið fjölgað síðan 2009. Svo er það hvort við ætlum að setja þetta fjöl­breyttara kerfi á lag­girnar, að við séum með ný­liða­sjóð fyrir ungt fólk og svo að það væri þá fyrir starfandi lista­menn að það verði þá lang­tíma­fyrir­komulag og meiri sam­fella í kerfinu,“ segir Lilja.

Hún segir það einnig koma til greina að setja á fót fleiri verk­efna­sjóði fyrir lista­menn og að styrkja betur þá sem fyrir eru á borð við Mynd­listar­sjóð og Tón­listar­sjóð. Spurð um hvort það komi til greina að færa út­hlutun launanna hinum megin við ára­mót en ýmsir lista­menn hafa gagn­rýnt það að fá ekki svar við um­sóknum sínum fyrr en komið er inn í fyrstu daga eða vikur janúar­mánaðar segir Lilja:

„Já ég meina, allt sem við getum mögu­lega gert til þess að bæta og ef þetta er til þess að gera það þá kemur það klár­lega til greina.“