Listamannalaun hækkuðu upp í 428.420 kr. á mánuði 1. janúar 2022 til samræmis við launa- og verðlagshækkun fjárlaga 2022 en þau voru 409.580 í fyrra. Gert er ráð fyrir að launin hækki enn frekar á árinu vegna ákvörðunar ráðherra um að hækka framlög til launasjóðs listamanna um 100 milljónir króna í fjárlögum 2022.
„Þetta er ekki að mínu mati há tala og við stefnum að því á þessu kjörtímabili að þetta hækki núna í nokkrum skrefum af því ég tel að það sé mikilvægt fyrir listafólkið okkar og þetta kerfi hefur bara reynst mjög vel. Ríkisstjórnin er öll, myndi ég segja, á þessari línu að styðja betur við þetta kerfi,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, í samtali við Fréttablaðið.
Listamannalaunum ársins 2022 verður úthlutað á dögunum og þeir listamenn sem hljóta úthlutun fá launahækkun upp á rúmlega 81.000 er launin hækka upp í 490.920 kr. á mánuði. Að sögn ráðherra kemur til greina að endurskoða fyrirkomulag launasjóðsins enn frekar.
„Við höfum líka verið að líta til þess jafnvel að breyta aðeins umgjörðinni þannig að við séum með sérstök listamannalaun fyrir yngri listamenn og gera kerfisbreytingar en það er ekki alveg búið að samþykkja það,“ segir Lilja.
Ný tækifæri fólgin í sameiningu ráðuneyta
Nokkuð hefur verið um uppstokkun á ráðuneytum hjá nýrri ríkisstjórn, til að mynda þá hafa menningarmál og viðskiptamál verið sameinuð undir einum hatti. Að sögn Lilju eru mörg tækifæri fólgin í þessari sameiningu.
„Það sem gerist auðvitað með því að það sé verið að setja þetta nýja menningar- og viðskiptaráðuneyti á laggirnar, að þá er bara allt sem tengist menningu og listum komið á einn stað. Endurgreiðslukerfin fyrir bókmenntirnar, endurgreiðslurnar varðandi kvikmyndir, hljóðritun, þannig að nú erum við með til að mynda með kvikmyndamiðstöð og stór endurgreiðslukerfi allt á einum stað sem býr til ný tækifæri.“
Á síðasta kjörtímabili var einblínt töluvert á bókmenntir meðal annars með því að hækka framlög í bókasafnssjóð rithöfunda og afnema virðisaukaskatt á íslenskum bókum. Lilja segir að á þessu kjörtímabili verða sérstaklega einblínt á tónlist og kvikmyndir.
Launin hækka en mánuðirnir standa í stað
Mánaðarfjöldi listamannalauna hefur verið fastur í 1.600 mánuðum á ári síðan 2009. Árið 2021 var þó úthlutað 2.150 mánaðarlaunum, með 550 mánaða aukningu vegna faraldursins. Lilja segir að einblínt verði á að hækka mánaðarlaunin frekar en að fjölga mánuðum á kjörtímabilinu.
„Það sem við munum frekar gera á þessu kjörtímabili að fjölga jafnvel ekki en vinna markvisst að hækkun vegna þess að þegar listamannalaunin eru ekki hærri en þetta eins og raun ber vitni, þá erum við svolítið að senda skilaboð inn í allan geirann.“
Listamannalaunum er aðeins úthlutað einu sinni á ári núna og ef listamenn fá neitun á umsókn sína þurfa þeir því að bíða í ár áður en þeir geta sótt um aftur. Lilja segir það vel geta komið til greina að úthluta út sjóðnum oftar en einu sinni á ári. Þá segir hún ýmsar aðrar hugmyndir vera uppi um endurskipulagningu launasjóðanna.
„Við settum af stað þessa vinnu og ef við nefnum nokkrar þá er það náttúrlega bara að upphæð starfslaunanna hún hækki til samræmis við sambærilegar stéttir og við erum þegar byrjuð á því. Miðgildi þeirra launa er 550.000 og þú sérð alveg að við eigum svolítið í land þar. Annað sem hefur verið nefnt er hvort að við fjölgum mánuðunum, þeim hefur ekki verið fjölgað síðan 2009. Svo er það hvort við ætlum að setja þetta fjölbreyttara kerfi á laggirnar, að við séum með nýliðasjóð fyrir ungt fólk og svo að það væri þá fyrir starfandi listamenn að það verði þá langtímafyrirkomulag og meiri samfella í kerfinu,“ segir Lilja.
Hún segir það einnig koma til greina að setja á fót fleiri verkefnasjóði fyrir listamenn og að styrkja betur þá sem fyrir eru á borð við Myndlistarsjóð og Tónlistarsjóð. Spurð um hvort það komi til greina að færa úthlutun launanna hinum megin við áramót en ýmsir listamenn hafa gagnrýnt það að fá ekki svar við umsóknum sínum fyrr en komið er inn í fyrstu daga eða vikur janúarmánaðar segir Lilja:
„Já ég meina, allt sem við getum mögulega gert til þess að bæta og ef þetta er til þess að gera það þá kemur það klárlega til greina.“