Alþingi samþykkti í gær frumvarp Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um breytingu á lögum um listamannalaun sem fjölgar tímabundið starfslaunum sviðslistafólks og tónlistarflytjenda.

„Þetta er mikill gleðidagur og það er sérstaklega gott að geta stutt vel við bakið á ungu listafólki eftir erfiða tíma,“ segir Lilja.

Breytingunni er sérstaklega beint að ungu tónlistar- og sviðslistafólki en fimmtíu starfslaun verða eyrnamerkt ungu fólki í hvorum flokki.

Alls fær starfslaunasjóður sviðslistafólks fimmtíu mánuði til úthlutunar til fólks yngra en 35 ára.

Þá fær starfslaunasjóður tónlistarfólks hundrað mánuði til almennrar úthlutunar og fimmtíu mánuði til fólks yngra en 35 ára.

Starfslaun sviðslistafólks árið 2022 munu því nema 240 mánaðarlaunum í stað 190, og starfslaun tónlistarflytjenda munu nema 330 mánaðarlaunum í stað 180.