Sænski lista­maðurinn Lars Vilks, sem olli miklu fjaðra­foki árið 2007 þegar hann teiknaði Múhameð spá­mann með líkama hunds, lést í bíl­slysi í gær ná­lægt bænum Markaryd í Suður-Sví­þjóð.

Vilks, sem var 75 ára, hafði verið undir lög­reglu­vernd allt frá því hann birti teikningarnar sem voru á­litnar vera guð­last af mörgum múslimum og ollu því meðal annars að hryðju­verka­sam­tökin Al-Kaída buðu fram fé til höfuðs hans.

Vilks var far­þegi í lög­reglu­bíl sem var á mikilli ferð á hrað­braut þegar hann lenti í á­rekstri við vöru­bíl. Tveir lög­reglu­menn létust einnig í slysinu.

„Þetta er mjög sorg­legt at­vik. Það skiptir höfuð­máli fyrir okkur núna að við gerum allt sem við getum til að rann­saka hvað gerðist og hvað olli á­rekstrinum. Til að byrja með er ekkert sem gefur til kynna utan­að­komandi aðild,“ sagði tals­maður lög­reglunnar í dag.

Frá vettvangi slyssins.
Fréttablaðið/EPA

Missti stjórn á veginum

Sam­kvæmt vitni sem Afton­bladet dag­blaðið ræddi við virtist bíllinn sem Vilks var í missa stjórn og keyra yfir á öfugan vegar­helming hrað­brautarinnar á miklum hraða. Vöru­bíllinn hafði ekki tíma til að sveigja til hliðar og bílarnir tveir keyrðu á hvorn annan með miklum skelli á „ó­trú­legum hraða“.

Mikill eldur kviknaði í kjöl­far slyssins og fjöldi lög­reglu- og sjúkra­bíla voru kölluð á vett­vang.

„Verið er að rann­saka þetta sem hvert annað um­ferðar­slys. Af því að tveir lög­reglu­menn voru við­riðnir hefur rann­sókn verið skipuð við sér­staka deild skrif­stofu sak­sóknara,“ sagði tals­maður lög­reglunnar í sam­tali við AFP frétta­stofuna en bætti við að enginn grunur væri um sak­næma hegðun.

Vilks var skot­mark hryðju­verka­manna árið 2015 þegar hann kom fram á við­burði til stuðnings mál­frelsi á kaffi­húsi í Kaup­manna­höfn þar sem hryðju­verka­maður hóf skot­hríð og myrti kvik­mynda­leik­stjóra og særði þrjá lög­reglu­menn áður en hann fór í bæna­hús og gyðinga og skaut þar eftir­lits­mann.