Listakonurnar Steinunn Gunnlaugsdóttir og Bryndís Björnsdóttir segjast ekki sé um þjófnað á verki Ásmundar Sveinssonar að ræða og skora á lögreglu að skila verkinu óbreyttu fyrir framan Marshallhúsið.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu sem listakonurnar gáfu út í dag.

Listakonurnar telja að verkið Farangursheimild – Fyrsta hvíta móðirin í geimnum, sé ekki árás á persónu listamannsins Ásmundar Sveinssonar heldur felist í verkinu átök um almannarými og óuppgerðan menningararf.

Þær hafa þó áður haldið því fram að verkið feli í sér rasíska undirtóna en sú staðhæfing er útskýrð frekar í yfirlýsingunni: „Verkið Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku kjarnar í okkar huga hugmyndafræði sem ríkti í íslensku samfélagi þegar styttan var gerð - og ríkir enn í dag. Sú hugmyndafræði heitir rasismi og á sér djúpstæðar, menningarlegar og kerfislægar rætur. Þegar athöfn, orði eða verki er lýst sem rasísku er því ekki sjálfkrafa átt við að þar að baki búi meðvitaður rasískur ásetningur einstaklings.“

Hinn meinti listþjófnaður hefur verið kærður til lögreglu en listakonurnar neita þó að viðurkenna að um listþjófnað sé að ræða.

„Sú hugmyndafræði heitir rasismi og á sér djúpstæðar, menningarlegar og kerfislægar rætur“

Vilja ekki að verkin verði skilin að

Þá hefur lögreglan gefið það út að skilja þurfi verkin að en Steinunn og Bryndís telja það með öllu óskynsamlegt: „Geimflaugin er að svo stöddu besti staðurinn fyrir þessa afsteypu af Fyrstu hvítu móðurinni í Ameríku. Við skorum því á lögregluna að láta ekki verða af aðskilnaðinum, heldur skila verkinu Farangursheimild – Fyrsta hvíta móðirin í geimnum óbreyttu aftur á sinn stað fyrir framan Marshallhúsið.“

Listakonurnar Steinunn og Bryndís telja að verkinu sé best fyrir komið fyrir utan Marshallhúsið þar sem það: „hentaði vel sem bakgrunnur verksins Farangursheimild vegna tengingar þess við heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Húsið var byggt fyrir fé úr Marshallaðstoðinni, aðstoð Bandaríkjanna við endur- og innviðabyggingu Evrópuríkja eftir síðari heimsstyrjöld, sem Íslendingar nutu góðs af sökum hernaðarlegs mikilvægis í kalda stríðinu.“