Lista­há­skóli Ís­lands flytur í gamla Toll­húsið í Tryggva­götu. Þetta var ein af þeim fimm að­gerðum sem ríkis­stjórnin kynnti til eflingar skapandi greina á blaða­manna­fundi í Duus­húsi í Reykja­nes­bæ í dag.

Sett verður á fót sér­stakt markaðs­ráð Skapandi Ís­lands, Lista­há­skólinn fer í nýtt hús­næði, stofnað verður rann­sóknar­setur skapandi greina við Bif­röst, Hag­stofan mun birta menningar­vísa og ritað hefur verið undir samning stjórn­valda og Lista­há­skólans um kvik­mynda­nám.

Lista­há­skólinn flytur í Toll­húsið

Lista­há­skóli Ís­lands hefur lengi barist fyrir fram­tíðar­lausn á hús­næðis­málum skólans og í dag kynnti ríkis­stjórnin á­form um að skólinn fái til af­nota fyrrum hús­næði Toll­stjóra að Tryggva­götu 19, í mið­bæ Reykja­víkur. Þar munu allar deildir LHÍ sam­einast í fyrsta sinn í rúm­lega 20 ára sögu skólans.

Niður­staða Fram­kvæmda­sýslu ríkisins er að Toll­húsið mæti vel fjöl­breyttum þörfum skólans, bæði hvað varðar stað­setningu og stærð, en gert er ráð fyrir að byggt verði við húsið. Þá er ná­lægð við aðrar mennta- og menningar­stofnanir og fyrir­tæki í ný­sköpunar­greinum einnig dýr­mæt fyrir starf­semi skólans.

Stefnt er á að halda sam­keppni um hönnun og endur­gerð hússins sem kynnt verður á haust­mánuðum.

Byggingin verði orku­stöð og hreyfi­afl

Fríða Björk Ingvars­dóttir, rektor Lista­há­skólans, sagði í við­tali við frétta­stofu RÚV að þetta væri fyrsta skrefið í átt að fram­tíðar­lausn sem felst í upp­byggingu á einum stað undir einu þaki fyrir allar list­greinar.

„Við erum búin að bíða eftir þessu í 20 ár og ég ætla bara að leyfa mér að trúa því að þetta verði að veru­leika úr þessu. Við höfum aldrei komist svona langt með þar­fa­greiningu í sam­starfi við ríkið.“

Hún segist hafa skynjað ríkan pólitískan vilja innan allra flokka enda sé Lista­há­skólinn mikil­væg stoð undir allar skapandi greinar í landinu.

„Við nærum og styrkjum og menntum fólkið inn í allar skapandi greinar og gerum bara ráð fyrir því að þessi bygging verði orku­stöð og hreyfi­afl sem knýr þessa miklu vél á­fram sem eru listirnar og sjálfs­mynd þjóðar og menningar­arfur til fram­tíðar,“ segir Fríða Björk.

Þá segir hún að hið sundraða hús­næði sem skólinn starfar í um þessar mundir standist alls ekki fag­legar kröfur.

„Þetta setur okkur í fyrsta lagi jafn­fætis öðrum skólum á Ís­landi hvað varðar hús­næði, að­stöðu og að­búnað fyrir okkar nem­endur og allt okkar starfs­fólk og þetta setur okkur líka í fremsta flokk meðal há­skóla á al­þjóða­vett­vangi því að við höfum gríðar­lega gott orð­spor fyrir okkar innra starf.“

Sett verður á stofn sér­tök deild í kvik­mynda­gerð í LHÍ en kvik­mynda­gerð hefur hingað til ekki verið kennd á há­skóla­stigi á Ís­landi. Fríða segir að fáir lista­há­skólar séu jafn víð­tækir og spanni jafn margar list­greinar eins og og Lista­há­skóli Ís­lands geri.

„Og það er líka sér­staða sem gaman verður að markaðs­setja og sjá hvað sprettur upp úr þeim suðu­punkti þegar fram líða stundir. Það er gríðar­legur slag­kraftur í þessu. Við gætum gert miklu meira fyrir ís­lenskt sam­fé­lag ef að við værum á einum stað.“