„Þetta er er ákveðið áfall en þetta er búið að vera svona í rúmt ár og við erum orðin ýmsu vön. Listafólk er, eins og allir landsmenn, orðið þreytt á þessu ástandi, en eru útsjónasamur hópur og neita að láta slá sig niður. Við verðum að halda áfram að sýna þolinmæði það er ekkert annað í boði,“ segir Birna Hafstein, forseti Sviðslistasambands Íslands og formaður Félags íslenskra leikara og sviðslistafólks, aðspurð út í áhrif nýjustu aðgerðanna á störf þeirra.

Í aðgerðum stjórnvalda sem kynntar voru í gær segir að sviðslistir og sambærileg starfsemi verði gert að loka næstu þrjár vikur. Um leið var allt staðarnám í skólum á Íslandi stöðvað fram að páskafríi fyrir utan leikskólastarf sem fær að halda áfram.

Fyrir vikið verður öllum leikhúsum lokað og eru listamenn því komnir í biðstöðu á ný.

„Það er mikill aðstöðumunur á stofnunum og sjálfstætt starfandi hópum. Sjálfstæði geirinn sem er lang stærsti hópurinn er auðvitað í verulega erfiðri stöðu. Það er lítið starfsöryggi alla jafna í sviðslistum og þetta ástand bætir það ekki en alveg merkilegt að sjá hvernig stéttin tekst á við þetta ómögulega ástand. Þetta er rosalegt auka álag bæði fjárhagslegt og andlegt, listamenn hafa sýnt það í gegnum tíðina að þeir láta ekki bugast og ef eitthvað er þá rísa þeir upp þegar verst stendur. Það hafa þeir svo sannarlega gert síðasta árið og notað hvert tækifærið til að tengjast þjóðinni á einhvern hátt í gegnum ýmsa miðla.”

Um leið var tilkynnt að allt íþróttalíf skyldi liggja niðri í þrjár vikur. KKÍ, KSÍ og HSÍ biðu ekki boðanna og aflýstu öllum leikjum, þar á meðal nokkrum leikjum sem áttu að fara fram í gær. Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, segir að sú ákvörðun hafi verið tekin í samvinnu. „Það fór allur vindur úr manni við að lesa þetta,“ segir hann, hreinskilinn um stöðu mála.

Frá leik í Dominos-deild kvenna fyrr í vetur.
fréttablaðið/ernir

„Þetta eru mikil vonbrigði að mörgu leyti, við áttum von á því að stjórnvöld myndu rífa í handbremsuna en við vorum með veika von um að íþróttalíf á afreksstigi fengi að halda áfram. Þetta er kjaftshögg þótt að við sýnum þessu fullan skilning og stöndum með yfirvöldum.“

Hannes tók undir að það væri auðveldara að meðtaka þetta eftir að hafa gengið tvisvar í gegnum þetta áður, en vonaðist til að fá viðræður um undanþágur.

„Við munum óska eftir viðræðum þar sem við könnum hvort að hægt sé að endurskoða bann á íþróttum á afreksstigi. Við höfum sýnt það í verki að þetta er hægt, fyrr í vetur.“