Hugmyndin er að nýta þetta hús fyrir fræðimenn eða listamenn sem vilja fá aðstöðu í stuttan tíma,“ segir Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, um þá fyrirætlan að hætta við að rífa sumarhús næst Valhallarreitnum en úthluta því til fræðistarfa og listsköpunar.

Um er að ræða hús sem Þingvallanefnd eignaðist 2016 eftir áralangar viðræður við þáverandi eigendur sem voru tíu fjölskyldur úr sömu ætt. Sagt var frá kaupunum í Fréttablaðinu 6. febrúar 2017. Kom þar fram að rífa ætti húsið og „uppræta og fjarlægja greniskóginn“, eins og sagði í bréfi Ólafs Arnar Haraldssonar, þáverandi þjóðgarðsvarðar, til forsætisráðuneytisins.

„Fyrirsjáanlegt er að núverandi sumarbústaður og greniskógur stendur í vegi fyrir tengingu sem nú er rætt um að verði milli aðalaðstöðu ferðamanna á Hakinu og svæðisins við Valhallarreitinn og umhverfisins við Öxará,“ útskýrði Ólafur Örn fyrir ráðuneytinu.

Þótt þáverandi þjóðgarðsvörður teldi áríðandi að húsið og greni­skógurinn hyrfi er bústaðurinn enn á sínum stað og flest trén líka.

„Þegar þetta hús var keypt var lögð á það mikil áhersla af því að það var svo nálægt þinghelginni en þegar var farið að skoða þetta nánar þá fannst mönnum að það mætti kannski reyna að nýta þetta hús til góðs fyrir þjóðgarðinn. Það komu upp þessar hugmyndir og Þingvallanefnd hefur verið jákvæð fyrir því,“ segir núverandi þjóðgarðsvörður.

Þingvallanefnd tók vel í málið á síðasta fundi sínum en frestaði ákvörðun til næsta fundar.

Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Að sögn Einars er nýtingin hugsuð í svipuðum dúr og lista- og fræðimannsíbúðirnar á Skriðuklaustri og í Jónshúsi í Kaupmannahöfn.

„Við höfum verið að horfa til þess að fá líf í þetta hús,“ segir Einar. Meðal annars verði litið til listamanna og fræðimanna sem séu að vinna að einhverju sem tengist Þingvöllum.

„Líklega yrði sett á fót úthlutunarnefnd sem myndi hafa einverjar grundvallarreglur til þess að fara eftir og svo sækja menn bara um. Nefndin yrði líklega skipuð einhverjum frá fagfélögum og einhverjum frá þjóðgarðinum eða Þingvallanefnd,“ svarar Einar aðspurður hvernig úthlutun verði háttað.

Þjóðgarðsvörður undirstrikar að innheimt verði leiga. „Þá er verið að tala um grunngjald sem tekur mið af þeim fasta kostnaði sem við berum af þessu húsi,“ segir hann.

Sumarbústaðurinn, sem var byggður árið 1945 og síðar endurbyggður, er 49 fermetrar. Hann var sagður í mjög góðu ástandi er ríkið keypti hann á 35 milljónir króna.