Lísa Kristjánsdóttir sem verið hefur aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í átta ár, lætur nú af starfinu og hverfur til annarra verkefna. Hún tilkynnti þetta á Facebook fyrir stundu.

„Kæra Katrín, takk fyrir að treysta mér fyrir öllum þessum verkefnum, fyrir samstarfið og gangi þér allt til sólar,“ segir hún í færslunni og lætur þess getið að nú hverfi hún á vit annarra ævintýra og um leið sinna fjölskyldu og áhugamálum betur.

Svo lýsir Lísa tilfinningum sínum á þessum tímamótum:

„Árið 2013 eignaðist ég ekki bara einstakan samstarfsfélaga heldur líka sérstaka vinkonu þegar nýr formaður Vinstri grænna, Katrín Jakobsdóttir, fól mér það verkefni að vera sinn aðstoðarmaður.

Ég er einstaklega stolt af því að hafa unnið að því að gera VG að leiðandi afli í íslenskum stjórnmálum og Katrínu Jakobsdóttur að leiðtoga íslenskra stjórnmála.

Það hefur verið ævintýri líkast að starfa við hlið Katrínar og með hreyfingunni allri. Stjórnmálamenn gæddir kostum Katrínar eru ekki á hverju strái. Það er mín einlæga sannfæring að hún hafi og muni enn frekar sýna það og sanna að hér fer einhver merkasti stjórnmálamaður íslenskrar stjórnmálasögu og þó víðar væri leitað.

Ný ríkisstjórn undir forystu Katrínar hefur nú tekið við og er íslenskt samfélag gæfusamt að njóta hennar krafta.“