„Markmiðið er að útbúa tvær íbúðir í húsinu sem yrðu leigðar á sanngjörnu verði foreldrum langveikra barna í Rjóðrinu sem og aðstandendum sjúklinga á Líknardeild og öðrum deildum Landspítala,“ segir Einar G. Bollason, meðlimur í Lionsklúbbi Kópavogs (LKK).

Meðlimir Lionsklúbbsins hyggjast gera upp Kópavogsbúið, elsta hús Kópavogs í samstarfi við bæinn. Áætlaður kostnaður við verkið er 53 milljónir króna og gert er ráð fyrir að verkið taki tvö og hálft ár. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, og Högni Guðmundsson, formaður LKK, munu skrifa undir samstarfssamning næstkomandi þriðjudag. Samningurinn felur í sér 25 milljóna króna framlag bæjarins til verkefnisins.

Fjárframlög til góða

Undanfarin ár hefur LKK lagt áherslu á stuðning við Rjóðrið, hjúkrunar- og endurhæfingardeild fyrir langveik og langveik fötluð börn sem hefur starfsstöð sína í Kópavogi. Klúbburinn hefur veitt alls rúmlega 18 milljónir til Rjóðursins sem nýttar hafa verið í ýmsa uppbyggingu starfseminnar. Til að mynda gaf Lionsklúbburinn Rjóðrinu sérútbúinn bíl fyrir hreyfihömluð börn og börn í hjólastólum, fyrir afrakstur fjáröflunarkvölda klúbbsins.

Einar segir að verkefnið hefði ekki getað orðið að veruleika ef ekki væri fyrir fjárframlag bæjarins. „Mismuninn borgar svo klúbburinn og vonandi með þátttöku helstu styrktaraðila klúbbsins, bæði fyrirtækja og einstaklinga,“ segir hann.

Einar segir Kópavogsbýlið verða gert upp af meðlimum Lionsklúbbsins, það sé einnig stór þáttur í því að verkefnið geti orðið að veruleika. „Okkar menn og félagar munu að miklu leyti vinna þetta, margir þeirra eru til dæmis iðnaðarmenn,“ segir hann.

Sögufræg bygging

Kópavogsbúið var reist af Erlendi Zakaríassyni á árunum 1902-1904. Húsið er hlaðið úr tilhöggnu grjóti og við byggingu þess notaði Erlendur, sem var steinsmiður, steinlím með svipuðum hætti og hann hafði lært þegar hann vann að byggingu Alþingishússins á árunum 1880-1881. Húsið er elsta húsið í Kópavogi og er eitt fárra steinhlaðinna húsa sem enn standa utan Reykjavíkur.

Jörðin sem húsið stendur á á sér langa sögu og var þar til að mynda þingstaður til ársins 1751. Kópavogsbúið var friðað af mennta- og menningarmálaráðherra 12. október árið 2012 og nær friðunin til ytra byrðis hússins.