Bandaríski samfélagsmiðillinn LinkedIn, í eigu Microsoft, ætlar að hætta starfsemi sinni í Kína og loka vefsíðunni þar síðar á árinu. Að sögn fyrirtækisins er það „vegna þess að rekstrarumhverfið er orðið meira krefjandi og tilskipana sem erfiðara er að fylgja.“
LinkedIn ætlar að bjóða upp á nýja þjónustu sem aðeins verður í boði í Kína. Þar verður ekki hægt að setja inn færslur eða setja inn ummæli en það hefur verið grundvöllur starfsemi samfélagsmiðilsins um heim allan.
Fyrirtækið hefur lengi vel verið eina stóri bandaríski samfélagsmiðillinn í boði í Kína en Facebook og Twitter eru ekki leyfðir þar. Til að styggja ekki kínversk yfirvöld hefur fyrirtækið hingað til ritskoðað færslur kínverskra notenda í samræmi við þarlend lög en önnur bandarísk tæknifyrirtæki hafa verið treg til þess eða ekki haft bolmagn til.
Í mars ávíttu kínversk yfirvöld LinkedIn fyrir að ritskoða ekki pólitískt efni samkvæmt heimildarmönnum New York Times.