Fyrrverandi sambýlismaður Lindu Gunnarsdóttir var í dag sakfelldur í Héraðsdómi Reykjaness og dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára vegna ofbeldis sem hann beitti hana.

Dómur var kveðinn upp í málinu í Héraðsdómi Reykjaness í dag og segir Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, lögmaður mannsins, að honum verði áfrýjað til Landsréttar.

„Ég er rosalega ánægð að hann sé sakfelldur,“ segir Linda en hún steig fram í helgarviðtali Fréttablaðsins fyrir rúmu ári vegna málsins.

Kæru Lindu var upprunalega vísað frá á þeim grunni að um væri að ræða orð gegn orði, þrátt fyrir að áverkavottorð sýndi átta áverka og árásin væri flokkuð sem alvarleg. Fyrrverandi sambýlismaður Lindu hafði fengið töluvert pláss í fjölmiðlum en hann var í sjónvarpsþáttum og var mikið til umfjöllunar vegna þeirra.

Linda segir kæruferlið hafa verið ansi langt og í raun algjöran rússíbana enda hafi því upphaflega verið vísað frá. Hún sé þó mjög ánægð með sakfellingu og að það sé gríðarlegur léttir að fá loks niðurstöðu í málinu. „Þetta er líka frábært fyrir aðra í svipaðri stöðu og ég. Sýnir að maður á að halda áfram,“ segir Linda.

Tók málið upp á ný

Nokkrum dögum eftir við­tal Lindu í Frétta­blaðinu var greint frá því að ríkis­sak­sóknari hefði á­kveðið að rann­sókn málsins yrði tekin upp á ný. Ríkis­sak­sóknari felldi þar með úr gildi á­kvörðun lög­reglu­stjórans á höfuð­borgar­svæðinu um að hætta rann­sókn á því.

At­vikið sem Linda kærði til lög­reglu er frá árinu 2015 og þurfti hún að leita að­hlynningar á bráða­mót­töku. Sam­kvæmt á­verka­vott­orði undir­rituðu af sér­fræði­lækni á bráða- og göngu­deild Land­spítala voru á­verkarnir á líkama Lindu átta talsins, þar á meðal við­beins­brot.

Hún kærði manninn 2020, fimm árum eftir á­rásina, en hún sagðist ekki hafa áttað sig al­menni­lega á hverju hún hefði orðið fyrir, fyrr en hún fór að opna á málið.

Þrjár konur kærðu

Í helgarviðtali Fréttablaðsins steig einnig önnur kona fram, Sara Regal, en hún átti í ástarsambandi við umræddan mann árið 2019. Greint var frá því að hún hefði lagt fram kæru til lögreglu vegna ofbeldis sem hún sagðist hafa orðið fyrir af hans hálfu á því tímabili.

Sara treysti sér ekki til að segja sögu sína í viðtali við Fréttablaðið en vildi stíga fram til að styðja við sögu Lindu og standa með öðrum konum sem hún sagðist vita til að hafi lent í sama manni.

Hún sagði manninn vera búinn að skilja eftir sig slóð af brotnum konum og að hún hefði verið í tvö ár að tjasla sér saman eftir ofbeldið.

Fréttablaðið greindi frá því í mars að þriðja konan hefði lagt fram kæru vegna ofbeldis á hendur sama manni. Erla Gunnarsdóttir hafði ekki treyst sér til að koma fram á sama tíma og Linda og Sara en í kjölfar afsökunarbeiðni þekkts fjölmiðlamanns ákvað hún að stíga skrefið til fulls.

Dómurinn sem féll í Héraðsdómi Reykjaness í dag á eingöngu við um mál Lindu gegn manninum.