Það eru ekki margir jeppar frá Bandaríkjunum sem eiga roð í jeppa evrópsku lúxusbílaframleiðendanna hvað afl varðar. Það má þó segja um þennan Lincoln Aviator jeppa, en Lincoln er lúxusbílamerki Ford. Það sem meira er og á ekki heldur oft við um jeppa eða bíla almennt frá Bandaríkjunum, þá er hann þessi með tengiltvinnaflrás. Lincoln Aviator er 494 hestafla orkubolti með 101 hestafla rafmagnsmótora, en restin af afli hans kemur frá brunavél. Tog Aviator jeppans verður líka að teljast viðunandi, eða 855 Nm.

Þó svo að Lincoln Aviator slái ekki við hinum 670 hestafla Porsche Cayenne Turbo S E-Hybrid, 600 hestafla Bentley Bentayga eða 641 hestafla Lamborghini Urus jeppunum, þá er hann öflugri en allir jeppar Audi. Það er þó einn jeppi í heiminum sem skákar öllum þessum jeppum í afli. Hann er frá Bandaríkjunum og heitir Jeep Grand Cherokee Trackhawk og er með 707 hestafla Hellcat vél.