„Auðvitað vonumst við eins og allir til þess að þessum verkföllum verði frestað en annars viljum við létta undir með fólki,“ segir Haraldur Guðmundsson, eigandi nýrrar eðalbílaleigu í Reykjavík.

Bílstjórar á strætisvagnaleiðum 12, 14, 15, 16, 17, 21, 24, 28, 35 og 36, leggja niður störf á háannatímum alla virka daga í apríl á meðan kjarasamningum er ólokið. Gildir þetta milli klukkan 7 og 9 á morgnana og milli 16 og 18 síðdegis.

Eðalvagnar Haraldar munu í dag aka á leið 14 sem fer frá Granda að Versló með viðkomu í Langholtshverfi og Bústaðahverfi. Einnig á leið 16 sem fer frá Hlemmi að Hádegismóum. Ferðirnar eru ókeypis.

„Við erum með þrjá bíla sem taka þrettán manns hver. Þannig að þótt þetta séu stórir bílar á sinn mælikvarða getum við augljóslega ekki komið í staðinn fyrir heilu strætisvagnana. En við ætlum að gera okkar besta,“ undirstrikar Haraldur.

Þar sem ekki komast allir með limmósínunum biður Haraldur fólk að mynda einfaldar raðir á hefðbundnum biðstöðvum Strætó. „Síðan tökum við bara við fólki þangað til bílarnir fyllast. Að sjálfsögðu hleypum við svo farþegum út á hefðbundnum stöðum þannig að það geta alltaf losnað pláss á leiðinni,“ segir Haraldur Guðmundsson.