Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, segist ekki sjá neina ástæðu til sérstakra viðbragða, spurður hvort hann hyggist axla ábyrgð á talningarklúðri og meintum lögbrotum í tengslum við geymslu kjörgagna. Þá segist hann ekki sjá ástæðu til að kjósa þurfi upp á nýtt á öllu Íslandi þar sem nú sé búið að finna rétta niðurstöðu með endurtalningu.

„Þetta er ekki í fyrsta skipti í kosningum, sem það er endurtalið. Ég skil ekki ef kjósa þyrfti alls staðar aftur. Það eru svo mikil öfugmæli að ég átta mig ekki á þeim,“ segir Ingi í samtali við Fréttablaðið.

Helga Vala Helgadóttir sem sat í kjörbréfanefnd Alþingis síðasta kjörtímabil sagði í viðtali við Fréttablaðið að málið væri mjög alvarlegt og einkum ef þyrfti að kjósa aftur.

Ingi segir að tal um innsigli eða ekki verði að skoða í því ljósi að ef menn hefðu haft vilja til að fara inn í pláss til að spilla kjörgögnum þann stutta tíma sem ekki var fólk í kringum kjörgögnin þá hefði límband engu máli skipt.

„Þetta mál snýst bara um að það misfórust nokkur atkvæði. Það voru öryggismyndavélar sem sýna að þótt svæðið hafi verið yfirgefið í nokkra klukkutíma, þá fór enginn inn og nú er komin rétt niðurstaða. Málið snýst um mannleg mistök,“ segir formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi.