Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um að ógilda úrskurð kærunefndar jafnréttismála um að ráðherrann hafi brotið lög með því að vanmeta konu í samanburði við karl. Dómurinn var kveðinn upp fyrir hádegi í dag og greinir RÚV frá.

Úrskurður kærunefndar stendur; mennta- og menningarmálaráðherra braut jafnréttislög með því að skipa Pál Magnússon í embætti ráðuneytisstjóra. Íslenska ríkið ber að greiða 4,5 milljónir í málskostnað Hafdísar Helgu Ólafsdóttur, sem kærði ráðninguna Páls Magnússonar til kærunefndar jafnréttismála.

Einstakt dómsmál

Málið má rekja til þess þegar ráðherrann réði Pál Magnússon, fyrrverandi bæjarritara og flokksbróður sinn, í embætti ráðuneytisstjóra. Fjórir voru metnir hæfastir af hæfnisnefnd og var Hafdís Helga, skrifstofustjóri hjá forsætisráðuneytinu, meðal þeirra. Hún kærði ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála sem komst að þeirri niðurstöðu að ráðherrann hefði vanmetið Hafdísi samanborið við Pál varðandi menntun, reynslu af opinberri stjórnsýslu, leiðtogahæfileika og hæfni til að tjá sig í riti.

Lilja brást við úrskurðinum með því að höfða mál gegn Hafdísi til að ógilda úrskurð kærunefndarinnar. Þessi ákvörðun vakti mikla athygli enda eru engin dæmi um að ráðherra hafi höfðað mál persónulega gegn starfsmanni ríkisins.

Þetta er síðasta dómsmál sem verður höfðað á Íslandi af þessu tagi en vegna nýrra laga er ekki hægt að stefna einstaklingi vegna úrskurðar kærunefndar heldur verður að höfða mál gegn kærunefndinni sjálfri héðan í frá.

Páll Magnússon var ráðinn í embætti ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Aðrir umsækjendur heyrðu fyrst af því í fjölmiðlum áður en þeim var tilkynnt um ráðninguna.
Mynd: Mennta- og menningarmálaráðuneytið