Samfélagsrýninum og sjónvarpsmanninum Agli Helgasyni og almannatenglinum Andrési Jónssyni ber saman um að Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hafi veitt Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni rothögg í Kastljóssviðtalinu í gærkvöld. Þá segir Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja og fyrrverandi ráðherra, að viðtalið við Lilju hafi verið „ótrúlega sterkt“ og þeir sem létu ljót orð falla um hana á Klaustur bar ættu að hlusta á hana.

Sjá einnig: Lilja ausin lofi fyrir frammistöðuna í Kastljósi

Egill segir í pistli á Eyjunni að Sigmundi Davíð hafi verið að takast að „skapa sér vígstöðu“ í gær og að litið hafi út fyrir að hann hefði möguleika á að sleppa undan eftirmálum Klaustursamsætisins. „En Lilja Alfreðsdóttir greiddi þessu stórt högg í viðtali í Kastljósi í kvöld.“

Andrés og Katrín ræddu málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun og þar greip Andrés til sama líkingamáls og Egill og talaði um að Lilja hefði í Kastljósinu veitt Sigmundi Davíð „ákveðið rothögg.“

Andrés sagði þungann í viðbrögðum Lilju ekki síst fólginn í því að hún er ekki þekkt fyrir stóryrði og þegar hún talar með þeim hætti sem hún gerði í gær megi segja að hún hafi rammað málið inn.

Sjá einnig: Ummælin „algjört ofbeldi“ og ófyrirgefanleg

Katrín á langa reynslu að baki bæði sem þingmaður og ráðherra og var spurð hvort hún myndi treysta sér til þess að starfa á þingi með Miðflokksmönnunum orðljótu ef hún væri í sporum Lilju.

„Nei, ég ætti mjög erfitt með það,“ svaraði Katrín og bætti við að hún hefði fengið „sting í hjartað“ þegar hún heyrði það sem þingmenn Miðflokksins sögðu um Lilju yfir glösum á Klaustur bar. Þetta hafi verið „mjög ljótt“ en Lilja hafi komið „sterk og einlæg“ fram í Kastljósinu og að þeir sem létu þessi orð falla um hana ættu að hlusta sérstaklega á hana.