„Hann er í dauðafæri á að leiða næstu ríkisstjórn,“ svarar Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokks og mennta- og menningarmálaráðherra, spurð hvort Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sé sá sem hún vilji sjá leiða næstu ríkisstjórn.
Spurð hvort sama stjórn og nú situr sé líka besti valkostur í hennar huga segir Lilja Framsókn vilja vera í forystunni.
„Framsóknarflokkurinn vill vera leiðandi og við stefnum auðvitað að því og við sjáum að málflutningur okkar hann hefur svo sannarlega verið að ná í gegn,“ segir Lilja og blæs á fullyrðingar um að ríkisstjórnin hafi ekki breytt miklu heldur lagt mesta áherslu á stöðugleika. „Það er algjör þvæla.“
Lilja tók nýlega hlé frá störfum af heilsufarsástæðum. „Já, ég var undir talsverðu álagi, ég ákvað að það væri skynsamlegt að taka mér hvíld,“ segir hún en tekur ekki undir að hún hafi farið í kulnun. „Þetta var álag og mér fannst bara brýnt að stíga þarna aðeins til hliðar,“ segir Lilja og játar að segja megi að hún hafi gengið á vegg. Henni gangi hins vegar vel að vinna í því og hún sé búin að ná sér.
Um hvort erfitt sé fyrir stjórnmálamann að játa sig sigraðan og taka heilsuna fram yfir pólitíkina segir Lilja það vera þannig. „Jú, það er það og ég viðurkenni það fúslega en svo er auðvitað mjög mikilvægt að halda áfram og hlúa að sjálfum sér og fjölskyldu og passa upp á að setja heilsuna í fyrsta sæti.“