Tillaga að flutningi Hörpu Þórsdóttur, safnstjóra Listasafns Íslands, yfir í stöðu Þjóðminjavarðar, barst ráðherra frá embættismönnum ráðuneytisins. Þetta kemur fram í svörum Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Áður hefur Lilja sagt í fjölmiðlum að tillagan hafi komið fram hjá Skúla Eggerti Þórðarsyni ráðuneytisstjóra.

„Ákvörðun um að flytja Hörpu Þórsdóttur var eingöngu byggð á málefnalegum sjónarmiðum og á grundvelli þess að efla frekar Þjóðminjasafnið og færa safnið inn í nýja tíma með því að skipa hæfan og reyndan safnstjóra til starfans,“ segir í svari Lilju.

Lilja hefur sagt að hún geti ekki afturkallað eigin skipan þrátt fyrir hávær mótmæli og kröfu þar um hjá hluta safnafólks, fornleifafræðingum og fleirum. Segir í svari ráðherra að heimildir stjórnvalds til að breyta og/eða afturkalla ákvörðun séu „mjög takmarkaðar og háðar þröngum skilyrðum“. Vísað er til rits um Stjórnsýslulögin eftir Pál Hreinsson frá 1994 þar sem segir:

„Ef stjórnvöld hefðu alveg frjálsar hendur um það hvort og hvenær þau tækju ákvarðanir til endurskoðunar, myndi rísa óviðunandi réttar­óvissa. Af þeim sökum eru reistar skorður við því, bæði í skráðum og óskráðum reglum, hvenær hægt er að taka ákvörðun til endurskoðunar.“

„Ákvörðun um flutning safnstjóra Listasafns Íslands var tekin á faglegum forsendum og heimildirnar byggja á sterkum lagagrunni,“ segir einnig. „Í ljósi þess eru ekki málefnalegar forsendur fyrir því að afturkalla flutninginn,“ segir í svari ráðherra, enda myndi slík ákvörðun ekki byggja á málefnalegum rökum og yrði ekki talin standast grundvallarreglur stjórnsýsluréttar.

Viðamiklar tilfærslur embættismanna síðari ár eru mjög umdeildar. Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur ásamt þingflokki sínum lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um skyldur og réttindi opinberra starfsmanna.

Lilja Alfreðsdóttir segir að hún geti ekki afturkallað skipan Hörpu Þórsdóttur í embætti Þjóðminjavarðar. Nokkrir þingmenn vilja að heimildir til flutnings embættismanna án auglýsingar verði þrengdar.
Fréttablaðið/Stefán

Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði greinar um flutning embættismanna gildi ekki um skipan í embætti ráðuneytisstjóra og taki ekki til allra embættismanna. Reglur um auglýsingar starfa verði þrengdar. Hnykkt er á að flutningur embættismanna sé undantekning frá almennri meginreglu um auglýsingaskyldu.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um að dómarar, embættismenn við dómstóla og dómstólasýsluna og embættismenn sem starfa á vegum Alþingis og eftirlitsstofnana þess, það er skrifstofustjóri Alþingis, umboðsmaður Alþingis og ríkisendurskoðandi, verði með öllu undanskildir ákvæðinu. Þannig verði tekinn af allur vafi um að ákvæðið heimilar ekki flutning milli hinna þriggja valdþátta ríkisins og tekur aðeins til flutnings embættismanna á vegum framkvæmdavaldsins.

„Með þessu er brugðist við því hættulega fordæmi sem var sett hinn 27. janúar 2022 þegar þáverandi ríkisendurskoðandi var fluttur yfir til nýs menningar- og viðskiptaráðuneytis og skipaður þar ráðuneytisstjóri með vísan til 36. gr. laga nr. 70/1996, en slík beiting ákvæðisins er ógn við sjálfstæði þeirra eftirlitsstofnana sem starfa á vegum Alþingis sem liður í eftirlitshlutverki þess gagnvart framkvæmdavaldinu,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.