Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur lagt fram stjórnartillögu og leitar með henni eftir stuðningi Alþingis við fyrirhugaða breytingu á heiti og fjölda ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
Þótt ráðherrum fjölgi aðeins um einn er gert ráð fyrir því að ráðuneytum fjölgi um tvö. Þau voru aðeins tíu á síðasta kjörtímabili en eitt þeirra, atvinnuvegaráðuneytið, var með tvo ráðherra.
Í þessu fellst meðal annars að skipa þarf tvo nýja ráðuneytisstjóra í hin nýju ráðuneyti. Þetta staðfestir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra í samtali við Fréttablaðið, en þó með þeim fyrirvara að enn á eftir að ræða og samþykkja stjórnartillöguna á Alþingi.
Að óbreyttu mun Lilja Alfreðsdóttir skipa ráðuneytisstjóra í sitt nýja ráðuneyti menningar og viðskipta, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir mun skipa ráðuneytisstjóra í nýtt háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
Ekki útilokað að embættismenn verði færðir til
Gera verður ráð fyrir því að Benedikt Árnason verði ráðuneytisstjóri matvælaráðuneytisins en hann er nú ráðuneytisstjóri í atvinnuvegaráðuneytinu.
Páll Magnússon sem nýlega var skipaður ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti heldur væntanlega áfram í breyttu ráðuneyti mennta- og barnamála.
Þó má geta þess að heimild er til staðar í starfsmannalögum til að færa embættismenn milli embætta með ákveðnum takmörkunum. Þannig er ekki útilokað að Páll fylgi Lilju yfir í nýtt ráðuneyti og Ásmundur Einar skipi nýjan ráðuneytisstjóra í sitt ráðuneyti.
Eitt nýtt ráðuneyti kostar 190 milljónir á ári
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að stefnt er að gildistöku breytinganna 1. febrúar á næsta ári. Þá er einnig vikið að kostnaði við þessar breytingar. Þar segir að kostnaðarauki felist einkum í auknum launakostnaði, en að frátöldum launakostnaði nýs ráðherra og tveimur aðstoðarmönnum hans megi gera ráð fyrir sex nýjum stöðugildum við stofnun nýs ráðuneytis, þar á meðal staða nýs ráðuneytisstjóra.
Gert er ráð fyrir að kostnaðarauki vegna nýs ráðuneytis verði um það bil 190 milljónir á ári og er þar talinn launakostnaðar, rekstrarkostnaður og kostnaður vegna húsnæðis.
Þar sem ný ráðuneyti eru tvö á þessi kostnaðarauki við um þau bæði, en þó ekki nema að nokkru leyti. Í greinargerð forsætisráðherra segir að þessi aukakostnaður tvöfaldist ekki, enda fjölgi ráðherrum aðeins um einn og stöðugildi aðstoðarmanna, ritara og bílstjóra takmarkist af því.
Helstu breytingar á ráðuneytum
Í stjórnartillögunni er stiklað á stóru um hvert og eitt ráðuneyta Stjórnarráðsins og farið yfir helstu breytingar sem verða á þeim.

Mannréttindin í forsætisráðuneyti
Málefni mannréttinda og mannréttindasáttmála færast til forsætisráðuneytisins. Um þessa breytingu segir meðal annars:
„Inntak stjórnarmálefnisins er almenn stefnumótun á sviði mannréttindamála, innleiðing og eftirfylgni alþjóðlegra mannréttindaskuldbindinga og yfirumsjón með framkvæmd og stöðu mannréttindamála með hliðsjón af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist sem og aðkoma og málsforræði vegna dómsmála sem höfðuð eru gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu o.fl. Um er að ræða margþætt verkefni sem felur m.a. í sér yfirumsjón með lagabreytingum þegar þeirra er þörf vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga og skýrslugjöf til nefnda um framkvæmd þeirra mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að.“

Vísað er til þess að jafnréttismál hafi verið færð til forsætisráðuneytisins árið 2019 og augljós samlegð verði með þessum málaflokkum í forsætisráðuneytinu.
Þá er einnig vísað til samkomulags stjórnarflokkanna um að komið verði á fót nýrri Mannréttindastofnun, en það hefur lengi verið til umræðu. Það verður á könnu forsætisráðherra að hrinda því verkefni í framkvæmd.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti
Félagsmálaráðuneytið verður að félags- og vinnumarkaðsráðuneyti „til samræmis við áherslur ríkisstjórnar á bætt umhverfi vinnumarkaðarins,“ eins og segir í tillögu forsætisráðherra.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fer með málefni innflytjenda og flóttafólks og tekur nú jafnframt við þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd frá dómsmálaráðuneytinu. Hingað til hefur félagsmálaráðuneytið aðeins borið ábyrgð á móttöku kvótaflóttamanna en þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem bíða niðurstöðu umsóknar, hefur verið á ábyrgð dómsmálaráðuneytis.

Tilfærsla þjónustu við þennan hóp til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis „er liður í að samræma að því marki sem unnt er móttöku fólks á flótta í samstarfi ríkis og sveitarfélaga óháð því á hvaða forsendum fólk kemur til landsins.“
Dómsmálaráðuneytið mun hins vegar áfram fara með réttaraðstoð og hefðbundna stjórnsýslu við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi hér á landi.
Háskólar og atvinnulíf vinni saman
„Nýtt ráðuneyti vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunar endurspeglar áherslur ríkisstjórnarinnar á að takast á við áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar og nýta hraðfleygar tæknibreytingar og stafræna umbyltingu í þágu samfélagsins alls,“ segir í tillögu forsætisráðherra.

Þá segir að með því að leiða saman í einu ráðuneyti málefni háskóla, vísinda, rannsókna, nýsköpunar, iðnaðar og hugverka skapist grundvöllur fyrir markvissari stefnumótun og stjórnsýslu á þessum sviðum.“
Meðal markmiða með þessari breytingu er að því er fram kemur í tillögunni, að undirstrika mikilvægi þess að háskólar og atvinnulíf vinni saman að rannsóknum og nýsköpun í íslensku samfélagi.
Skoða sameiningu Samkeppniseftirlits og Neytendastofu
Nýtt ráðuneyti menningar og viðskipta tekur við málaflokkum sem nú heyra undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið.
Meginmálaflokkar ráðuneytisins verða samkeppnismál, ríkisaðstoð, neytendamál, ferðamál, verslun og þjónusta, fjölmiðlar, safnamál, listir og menning og íslensk tunga og íslenskt táknmál

Þá segir í greinargerð forsætisráðherra að meðal verkefna nýs ráðuneytis verði athugun á sameiningu Samkeppniseftirlitsins og Neytendastofu auk þess sem kannaðir verði möguleikar sameiningu við aðrar stofnanir eftir atvikum sem getur aukið samlegðaráhrif og skilvirkni í opinberu eftirliti.
„Meginmarkmiðið er að styrkja samkeppni innanlands, tryggja stöðu neytenda betur í nýju umhverfi netviðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs,“ segir í greinargerðinni.
Áhersla á húsnæðismál í innviðaráðuneyti
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið verður að innviðaráðuneyti samkvæmt tillögunni og til þess munu flytjast annars vegar húsnæðis- og mannvirkjamál og hins vegar skipulagsmál. Í þessu nýja ráðuneyti verða því málaflokkar á við sveitarstjórnarmál, byggðamál, skipulagsmál, húsnæðis- og mannvirkjamál og samgöngumál.
Staldrað er sérstaklega við húsnæðismál í umfjöllun um þetta ráðuneyti og lögð áhersla á að með breytingunni náist betri samvinna og upplýsingagjöf á milli ríkis og sveitarfélaga.

„Bætt yfirsýn gerir kleift að hraða skipulagsferlum, einfalda regluverk í samvinnu við sveitarfélög og stuðla að samræmdari afgreiðslu sveitarfélaga, svo sem í skipulagsmálum og byggingareftirliti. Umgjörð um byggingariðnað verður einfölduð í því skyni að lækka byggingarkostnað án þess að það sé á kostnað gæða og algildrar hönnunar. Hvetja þarf til stöðugrar uppbyggingar húsnæðis um land allt. Félagslegar aðgerðir í gegnum almenna íbúðakerfið, bætt réttarstaða leigjenda, samvinna við sveitarfélög og áhersla á að nauðsynlegar upplýsingar um húsnæðismarkað séu aðgengilegar á miðlægum grunni hverju sinni munu með nýjum áherslum bæta þjónustu við íbúa og sveitarfélög,“ segir meðal annars um húsnæðismálin.
Þá segir einnig að stuðla þurfi að nægilegu framboði byggingarlóða til lengri tíma í samvinnu við sveitarfélög.
Skógræktin verður í matvælaráðuneyti
Þeir málaflokkar voru á ábyrgð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu færast nú til matvælaráðuneytisins. Auk þeirra munu málefni skóga, skógræktar og landgræðslu flytjast til matvælaráðuneytisins.

Um þennan flutning segir meðal annars í greinargerð með tillögu forsætisráðherra:
„Verkefni á sviði skógræktar og landgræðslu tengjast landbúnaði og landnýtingu verulega sem og loftslagverkefnum í landbúnaði. Þýðingarmikið er að tryggja sem víðtækasta þátttökubænda á báðum þessum sviðum til að árangur náist. Með tilfærslu skógræktar og landgræðslu til ráðuneytis landbúnaðar eru skapaðar forsendur til að auka umfang og bæta árangur loftslagsverkefna í landbúnaði og landnýtingu. Verkefnaflutningurinn styður þannig við stór markmið ríkisstjórnarinnar í umhverfis- og loftslagsmálum samkvæmt sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf.“
Íþróttir verða í mennta- og barnamálaráðuneyti
Mennta- og menningarmálaráðuneytið fær nýtt nafn og verður mennta- og barnamálaráðuneyti og mun fara með málefni skóla og fræðslu, æskulýðs- og íþróttamál auk málefna barna og barnaverndar.

Í greinargerð með tillögu forsætisráðherra er vísað til umbóta á lagaumhverfi um málefni barna, þar á meðal nýrrar löggjafar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem tekur gildi nú um áramótin. Markmið breytinganna á ráðuneytinu er „að bæta þjónustu við börn með því að afnema kerfislægar hindranir og búa málaflokknum heildstæða umgjörð.“
Spornað við loftslagsvá í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið fær nýtt nafn og verður umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti. Flutningur orkumála inn í ráðuneytið endurspeglar, samkvæmt greinargerðinni, það meginverkefni umhverfis- og stjórnmálanna á heimsvísu á komandi árum að sporna við loftslagsvánni.

„Flutningur orkumála og orkuframleiðslu til ráðuneytis umhverfismála er hugsuð til að samþætta og leita jafnvægis á milli sjónarmiða umhverfis- og loftslagsverndar annars vegar og orkuöflunar og orkuiðnaðar hins vegar en hvort tveggja eru grundvallarforsendur velsældar og hagvaxtar í framtíðinni hér á landi og um heim allan,“ segir í greinargerðinni.
Þá er markmiðið einnig að samræma betur stefnumótun og framkvæmd stefnu í orkuskiptum, orkumálum og loftslagsmálum. Sjálfbær þróun sé leiðarljós á þeirri vegferð sem og jafnvægi milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta.
Fjögur ráðuneyti breytast lítið

Núverandi fyrirkomulag dómsmálaráðuneytis verður að mestu leyti óbreytt í skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands en þó verða þangað flutt verkefni tengd lögum og reglum um undirbúning stjórnarfrumvarpa.
Verkefni fjármála- og efnahagsráðuneytis breytast einnig lítið en þó færast málefni tengd viðskiptum til menningar- og viðskiptaráðuneytisins.
Bæði heilbrigðisráðuneytið og utanríkisráðuneytið verða óbreytt frá síðasta kjörtímabili.