Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra hefur lagt fram stjórnar­til­lögu og leitar með henni eftir stuðningi Al­þingis við fyrir­hugaða breytingu á heiti og fjölda ráðu­neyta í Stjórnar­ráði Ís­lands.

Þótt ráð­herrum fjölgi að­eins um einn er gert ráð fyrir því að ráðu­neytum fjölgi um tvö. Þau voru að­eins tíu á síðasta kjör­tíma­bili en eitt þeirra, at­vinnu­vega­ráðu­neytið, var með tvo ráð­herra.

Í þessu fellst meðal annars að skipa þarf tvo nýja ráðu­neytis­stjóra í hin nýju ráðu­neyti. Þetta staðfestir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra í samtali við Fréttablaðið, en þó með þeim fyrirvara að enn á eftir að ræða og samþykkja stjórnartillöguna á Alþingi.

Að óbreyttu mun Lilja Al­freðs­dóttir skipa ráðu­neytis­stjóra í sitt nýja ráðu­neyti menningar og við­skipta­, og Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir mun skipa ráðu­neytis­stjóra í nýtt há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráðu­neyti.

Ekki útilokað að embættismenn verði færðir til

Gera verður ráð fyrir því að Bene­dikt Árna­son verði ráðu­neytis­stjóri mat­væla­ráðu­neytisins en hann er nú ráðu­neytis­stjóri í at­vinnu­vega­ráðu­neytinu.

Páll Magnús­son sem ný­lega var skipaður ráðu­neytis­stjóri í mennta- og menningar­mála­ráðu­neyti heldur væntan­lega á­fram í breyttu ráðu­neyti mennta- og barna­mála.

Þó má geta þess að heimild er til staðar í starfs­manna­lögum til að færa em­bættis­menn milli em­bætta með á­kveðnum tak­mörkunum. Þannig er ekki úti­lokað að Páll fylgi Lilju yfir í nýtt ráðu­neyti og Ás­mundur Einar skipi nýjan ráðu­neytis­stjóra í sitt ráðu­neyti.

Eitt nýtt ráðuneyti kostar 190 milljónir á ári

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að stefnt er að gildistöku breytinganna 1. febrúar á næsta ári. Þá er einnig vikið að kostnaði við þessar breytingar. Þar segir að kostnaðarauki felist einkum í auknum launakostnaði, en að frátöldum launakostnaði nýs ráðherra og tveimur aðstoðarmönnum hans megi gera ráð fyrir sex nýjum stöðugildum við stofnun nýs ráðuneytis, þar á meðal staða nýs ráðuneytisstjóra.

Gert er ráð fyrir að kostnaðarauki vegna nýs ráðuneytis verði um það bil 190 milljónir á ári og er þar talinn launakostnaðar, rekstrarkostnaður og kostnaður vegna húsnæðis.

Þar sem ný ráðuneyti eru tvö á þessi kostnaðarauki við um þau bæði, en þó ekki nema að nokkru leyti. Í greinargerð forsætisráðherra segir að þessi aukakostnaður tvöfaldist ekki, enda fjölgi ráðherrum aðeins um einn og stöðugildi aðstoðarmanna, ritara og bílstjóra takmarkist af því.

Helstu breytingar á ráðuneytum

Í stjórnartillögunni er stiklað á stóru um hvert og eitt ráðuneyta Stjórnarráðsins og farið yfir helstu breytingar sem verða á þeim.

Miklar breytingar verða á skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í nýrri ríkisstjórn.
Fréttablaðið/Eyþór

Mannréttindin í forsætisráðuneyti

Mál­efni mann­réttinda og mann­réttinda­sátt­mála færast til for­sætis­ráðu­neytisins. Um þessa breytingu segir meðal annars:

„Inn­tak stjórnar­mál­efnisins er al­menn stefnu­mótun á sviði mann­réttinda­mála, inn­leiðing og eftir­fylgni al­þjóð­legra mann­réttinda­skuld­bindinga og yfir­um­sjón með fram­kvæmd og stöðu mann­réttinda­mála með hlið­sjón af þeim al­þjóð­legu skuld­bindingum sem Ís­land hefur undir­gengist sem og að­koma og máls­for­ræði vegna dóms­mála sem höfðuð eru gegn ís­lenska ríkinu fyrir Mann­réttinda­dóm­stóli Evrópu o.fl. Um er að ræða marg­þætt verk­efni sem felur m.a. í sér yfir­um­sjón með laga­breytingum þegar þeirra er þörf vegna þjóð­réttar­legra skuld­bindinga og skýrslu­gjöf til nefnda um fram­kvæmd þeirra mann­réttinda­samninga sem Ís­land er aðili að.“

20211127_malefnasamningur__006.jpg

Vísað er til þess að jafn­réttis­mál hafi verið færð til for­sætis­ráðu­neytisins árið 2019 og aug­ljós sam­legð verði með þessum mála­flokkum í for­sætis­ráðu­neytinu.

Þá er einnig vísað til sam­komu­lags stjórnar­flokkanna um að komið verði á fót nýrri Mann­réttinda­stofnun, en það hefur lengi verið til um­ræðu. Það verður á könnu for­sætis­ráð­herra að hrinda því verk­efni í fram­kvæmd.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti

Fé­lags­mála­ráðu­neytið verður að fé­lags- og vinnu­markaðs­ráðu­neyti „til sam­ræmis við á­herslur ríkis­stjórnar á bætt um­hverfi vinnu­markaðarins,“ eins og segir í til­lögu for­sætis­ráð­herra.

Fé­lags- og vinnu­markaðs­ráðu­neytið fer með mál­efni inn­flytj­enda og flótta­fólks og tekur nú jafn­framt við þjónustu við um­sækj­endur um al­þjóð­lega vernd frá dóms­mála­ráðu­neytinu. Hingað til hefur fé­lags­mála­ráðu­neytið að­eins borið á­byrgð á mót­töku kvóta­flótta­manna en þjónusta við um­sækj­endur um al­þjóð­lega vernd, sem bíða niður­stöðu um­sóknar, hefur verið á á­byrgð dóms­mála­ráðu­neytis.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson Ráðherrabústað.

Til­færsla þjónustu við þennan hóp til fé­lags- og vinnu­markaðs­ráðu­neytis „er liður í að sam­ræma að því marki sem unnt er mót­töku fólks á flótta í sam­starfi ríkis og sveitar­fé­laga óháð því á hvaða for­sendum fólk kemur til landsins.“

Dóms­mála­ráðu­neytið mun hins vegar á­fram fara með réttar­að­stoð og hefð­bundna stjórn­sýslu við af­greiðslu um­sókna um al­þjóð­lega vernd og dvalar­leyfi hér á landi.

Há­skólar og at­vinnu­líf vinni saman

„Nýtt ráðu­neyti vísinda-, iðnaðar- og ný­sköpunar endur­speglar á­herslur ríkis­stjórnarinnar á að takast á við á­skoranir fjórðu iðn­byltingarinnar og nýta hrað­fleygar tækni­breytingar og staf­ræna um­byltingu í þágu sam­fé­lagsins alls,“ segir í til­lögu for­sætis­ráð­herra.

Áslaug Arna Sigubjörnsdóttir.

Þá segir að með því að leiða saman í einu ráðu­neyti mál­efni há­skóla, vísinda, rann­sókna, ný­sköpunar, iðnaðar og hug­verka skapist grund­völlur fyrir mark­vissari stefnu­mótun og stjórn­sýslu á þessum sviðum.“

Meðal mark­miða með þessari breytingu er að því er fram kemur í til­lögunni, að undir­strika mikil­vægi þess að há­skólar og at­vinnu­líf vinni saman að rann­sóknum og ný­sköpun í ís­lensku sam­fé­lagi.

Skoða sam­einingu Sam­keppnis­eftir­lits og Neyt­enda­stofu

Nýtt ráðu­neyti menningar og við­skipta tekur við mála­flokkum sem nú heyra undir at­vinnu­vega- og ný­sköpunar­ráðu­neytið, mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið og fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytið.

Megin­mála­flokkar ráðu­neytisins verða sam­keppnis­mál, ríkis­að­stoð, neyt­enda­mál, ferða­mál, verslun og þjónusta, fjöl­miðlar, safna­mál, listir og menning og ís­lensk tunga og ís­lenskt tákn­mál

Lilja Alfreðsdóttir, Bessastaðir

Þá segir í greinar­gerð for­sætis­ráð­herra að meðal verk­efna nýs ráðu­neytis verði at­hugun á sam­einingu Sam­keppnis­eftir­litsins og Neyt­enda­stofu auk þess sem kannaðir verði mögu­leikar sam­einingu við aðrar stofnanir eftir at­vikum sem getur aukið sam­legðar­á­hrif og skil­virkni í opin­beru eftir­liti.

„Megin­mark­miðið er að styrkja sam­keppni innan­lands, tryggja stöðu neyt­enda betur í nýju um­hverfi net­við­skipta og efla al­þjóð­lega sam­keppnis­hæfni ís­lensks at­vinnu­lífs,“ segir í greinar­gerðinni.

Á­hersla á hús­næðis­mál í inn­viða­ráðu­neyti

Sam­göngu- og sveitar­stjórnar­ráðu­neytið verður að inn­viða­ráðu­neyti sam­kvæmt til­lögunni og til þess munu flytjast annars vegar hús­næðis- og mann­virkja­mál og hins vegar skipu­lags­mál. Í þessu nýja ráðu­neyti verða því mála­flokkar á við sveitar­stjórnar­mál, byggða­mál, skipu­lags­mál, hús­næðis- og mann­virkja­mál og sam­göngu­mál.

Staldrað er sér­stak­lega við hús­næðis­mál í um­fjöllun um þetta ráðu­neyti og lögð á­hersla á að með breytingunni náist betri sam­vinna og upp­lýsinga­gjöf á milli ríkis og sveitar­fé­laga.

20211207_rikisstjorn_EA_005.jpg

„Bætt yfir­sýn gerir kleift að hraða skipu­lags­ferlum, ein­falda reglu­verk í sam­vinnu við sveitar­fé­lög og stuðla að sam­ræmdari af­greiðslu sveitar­fé­laga, svo sem í skipu­lags­málum og byggingar­eftir­liti. Um­gjörð um byggingar­iðnað verður ein­földuð í því skyni að lækka byggingar­kostnað án þess að það sé á kostnað gæða og al­gildrar hönnunar. Hvetja þarf til stöðugrar upp­byggingar hús­næðis um land allt. Fé­lags­legar að­gerðir í gegnum al­menna í­búða­kerfið, bætt réttar­staða leigj­enda, sam­vinna við sveitar­fé­lög og á­hersla á að nauð­syn­legar upp­lýsingar um hús­næðis­markað séu að­gengi­legar á mið­lægum grunni hverju sinni munu með nýjum á­herslum bæta þjónustu við íbúa og sveitar­fé­lög,“ segir meðal annars um hús­næðis­málin.

Þá segir einnig að stuðla þurfi að nægi­legu fram­boði byggingar­lóða til lengri tíma í sam­vinnu við sveitar­fé­lög.

Skóg­ræktin verður í mat­væla­ráðu­neyti

Þeir mála­flokkar voru á á­byrgð sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra í at­vinnu­vega- og ný­sköpunar­ráðu­neytinu færast nú til mat­væla­ráðu­neytisins. Auk þeirra munu mál­efni skóga, skóg­ræktar og land­græðslu flytjast til mat­væla­ráðu­neytisins.

Svandís Svavarsdóttir tók við sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum af Kristjáni Þór Júlíussyni.
Fréttablaðið/ERNIR

Um þennan flutning segir meðal annars í greinar­gerð með til­lögu for­sætis­ráð­herra:

„Verk­efni á sviði skóg­ræktar og land­græðslu tengjast land­búnaði og land­nýtingu veru­lega sem og lofts­lag­verk­efnum í land­búnaði. Þýðingar­mikið er að tryggja sem víð­tækasta þátt­töku­bænda á báðum þessum sviðum til að árangur náist. Með til­færslu skóg­ræktar og land­græðslu til ráðu­neytis land­búnaðar eru skapaðar for­sendur til að auka um­fang og bæta árangur lofts­lags­verk­efna í land­búnaði og land­nýtingu. Verk­efna­flutningurinn styður þannig við stór mark­mið ríkis­stjórnarinnar í um­hverfis- og lofts­lags­málum sam­kvæmt sátt­mála um ríkis­stjórnar­sam­starf.“

Í­þróttir verða í mennta- og barna­mála­ráðu­neyti

Mennta- og menningar­mála­ráðu­neytið fær nýtt nafn og verður mennta- og barna­mála­ráðu­neyti og mun fara með mál­efni skóla og fræðslu, æsku­lýðs- og í­þrótta­mál auk mál­efna barna og barna­verndar.

Ásmudur Einar Daðason í ráðherrabústað.

Í greinar­gerð með til­lögu for­sætis­ráð­herra er vísað til um­bóta á laga­um­hverfi um mál­efni barna, þar á meðal nýrrar lög­gjafar um sam­þættingu þjónustu í þágu far­sældar barna sem tekur gildi nú um ára­mótin. Mark­mið breytinganna á ráðu­neytinu er „að bæta þjónustu við börn með því að af­nema kerfis­lægar hindranir og búa mála­flokknum heild­stæða um­gjörð.“

Spornað við lofts­lags­vá í um­hverfis-, orku- og lofts­lags­ráðu­neyti

Um­hverfis- og auð­linda­ráðu­neytið fær nýtt nafn og verður um­hverfis-, orku- og lofts­lags­ráðu­neyti. Flutningur orku­mála inn í ráðu­neytið endur­speglar, sam­kvæmt greinar­gerðinni, það megin­verk­efni um­hverfis- og stjórn­málanna á heims­vísu á komandi árum að sporna við lofts­lags­vánni.

Guðlaugur Þór Þórðarson, Valhöll

„Flutningur orku­mála og orku­fram­leiðslu til ráðu­neytis um­hverfis­mála er hugsuð til að sam­þætta og leita jafn­vægis á milli sjónar­miða um­hverfis- og lofts­lags­verndar annars vegar og orku­öflunar og orku­iðnaðar hins vegar en hvort tveggja eru grund­vallar­for­sendur vel­sældar og hag­vaxtar í fram­tíðinni hér á landi og um heim allan,“ segir í greinar­gerðinni.

Þá er mark­miðið einnig að sam­ræma betur stefnu­mótun og fram­kvæmd stefnu í orku­skiptum, orku­málum og lofts­lags­málum. Sjálf­bær þróun sé leiðar­ljós á þeirri veg­ferð sem og jafn­vægi milli efna­hags­legra, sam­fé­lags­legra og um­hverfis­legra þátta.

Fjögur ráðu­neyti breytast lítið

Fjórir ráðherrar sitja í lítið sem ekkert breyttum ráðuneytum.
Samsett mynd.

Nú­verandi fyrir­komu­lag dóms­mála­ráðu­neytis verður að mestu leyti ó­breytt í skipan ráðu­neyta í Stjórnar­ráði Ís­lands en þó verða þangað flutt verk­efni tengd lögum og reglum um undir­búning stjórnar­frum­varpa.

Verk­efni fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytis breytast einnig lítið en þó færast mál­efni tengd við­skiptum til menningar- og við­skipta­ráðu­neytisins.

Bæði heil­brigðis­ráðu­neytið og utan­ríkis­ráðu­neytið verða ó­breytt frá síðasta kjör­tíma­bili.