Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, gekk úr þingsal eftir orðaskipti við Gunnar Braga Sveinsson, þingmann Miðflokksins og fyrrum flokksbróður hennar úr Framsóknarflokknum. 

RÚV greindi fyrst frá en óvænt endurkoma Gunnars Braga og Bergþórs Ólasonar á þing í dag vakti gífurlega athygli. Þingmennirnir tveir tóku sér hlé frá þingstörfum eftir að umfjöllun um þau ummæli sem þeir létu falla á barnum Klaustur, hófst.

Tvisvar á meðan óundirbúnum fyrirspurnartíma stóð á þingi stóð Lilja Alfreðsdóttir upp úr sæti sínu, gekk að Gunnari Braga og hvíslaði að honum nokkrum orðum. Eftir síðari orðaskiptin yfirgaf hún þingsalinn.

Lilja var meðal þeirra sem þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins níddu á barnum Klaustur í nóvember í fyrra. Hvatti Gunnar Bragi til að mynda viðstadda til þess að „hjóla í helvítis tíkina“ og Bergþór Ólason sagði að loksins hafi komið „skrokkur sem typpið á honum dugði í.“