Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, fagnar áfangasigri í baráttu íslenskra stjórnvalda gegn matvörukeðjunni Iceland í dag eftir að Hugverkastofa Evrópu hafnaði áfrýjun Iceland Foods eftir að einkaleyfi fyrirtækisins á nafninu Iceland var fellt úr gildi.

Lilja rifjar upp þegar hún hóf málareksturinn árið 2016 þar sem henni hafi þótt fjarstæðukennt að verslunarkeðja út í heimi tæki heiti landsins í eigin viðskipti og reyndi að þrengja að íslenskum fyrirtækjum sem vildu nota nafn landsins sér til framdráttar.

„Það var því rökrétt og eðlileg ákvörðun sem ég tók sem utanríkisráðherra árið 2016 um að hefja málarekstur á hendur Iceland Foods vegna notkunar fyrirtækisins á nafninu Iceland - og sækja það hart,“ skrifar Lilja á Facebook og heldur áfram:

„Nýverið vísaði fjölskipuð áfrýjunarnefnd Hugverkastofu Evrópusambandsins frá áfrýjun Iceland Foods í málinu. Skráning verslunarkeðjunnar á vörumerkinu er því ógild. Iceland er því Íslands.“

Eins og Fréttablaðið greindi frá í dag var hugverkastofan áður búin að úrskurða að Iceland ætti ekki einkaleyfi á nafninu Iceland innan Evrópusambandsins.

Fyrirtækinu er áfram heimilt að selja vörur sínar undir merkjum Iceland en fyrirtækið getur ekki komið í veg fyrir sölu á öðrum vörum undir merkinu Iceland.