Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, er í sóttkví en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er eiginmaður hennar, Magnús Óskar Hafsteinsson hagfræðingur í fjármálaráðuneytinu , smitaður af COVID-19.

Ráðherrann segir að vegna smits úr nærumhverfi hennar verði hún að fara í sóttkví næstu tvær vikur. Hún hafi farið í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu en fengið neikvæðar niðurstöður.

Lilja var stödd á Alþingi í morgun en ekki er vitað hversu mikið samneyti hún hefur haft við aðra ráðherra í dag. Mögulegt er að aðrir þingmenn þurfi að fara í sóttkví.

Ekki hefur náðst í Lilju sjálfa.

Stefnt er að þinglokum í kvöld og standa nú yfir atkvæðagreiðslur í þinginu. Við upphaf atkvæðagreiðslu í kvöld brýndi Steingrímur J Sigfússon sérstaklega sóttvarnir og notkun handspritts fyrir þingmönnum.

Ráðherrann sendi frá sér yfirlýsingu á Facebook í kvöld þar sem hún segir þetta mikilvæga hvatningu um að gæta áfram sóttvarna.

„Ég verð í sóttkví næstu tvær vikur. Þessi staða er mikilvæg hvatning til okkar allra að gæta áfram sóttvarna. Öll viljum við halda áfram að njóta frelsisins sem fallega íslenska sumarið hefur upp á að bjóða.“