Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segist fordæma og harma netárás sem gerð var á vef Fréttablaðsins í morgun. Hún segir málið vera grafalvarlegt og telur mikilvægt að Íslenskir fjölmiðlar séu frjálsir.

„Mér finnst þetta grafalvarlegt vegna þess að við leggjum ríka áherslu á það hér á Íslandi að fjölmiðlar séu frjálsir. Og við viljum hafa öfluga fjölmiðla sem veita stjórnvöldum og viðskiptalífi aðhald. Þannig ég harma að sjálfsögðu þessa árás og fordæmi hana.“ segir Lilja í fréttavaktinni á Hringbraut.

Lilja segist ekki hafa kynnt sér kröfur Rússneska sendiráðsins, sem varðar myndbirtingu í Fréttablaðinu í gær, en þar sást einstaklingur traðka á rússneska fánanum.

„En ég legg ofuráherslu á það að hér á Íslandi þá skiptir öllu máli að fjölmiðlar séu frjálsir og þeir hafi rými til að veita stjórnvöldum aðhald og sinna skildum sínum. Þannig að öll skilaboð til rússneskra stjórnvalda eru í þá veru að við virðum fjölmiðla og þeir eiga að njóta þess frelsis sem vera ber.“ segir menningar- og viðskiptaráðherra.

Lilja segist aðspurð ekki hafa ákveðið hvort hún muni ræða málið við Rússneska sendiráðið, en segir að hún muni taka málið upp komi til samskipta við það.