Baldur Þór­halls­son, prófessor í stjórn­mála­fræði við Há­skóla Ís­lands, segir líkurnar á því að Rússar ráðist inn í Úkraínu fara stig­vaxandi. Tug­þúsundir rúss­neskra her­manna eru nú stað­settir á landa­mærum Rúss­lands og Úkraínu og er það al­þjóða­sam­fé­lagið uggandi yfir því að inn­rás sé yfir­vofandi.

Baldur birti pistil á Face­book-síðu sinni í morgun þar sem hann metur hættuna á því að Rússar ráðist inn í Úkraínu og mögu­legar net­á­rás á Ís­land í tíu at­riðum. Í fyrsta lagi segir hann líkurnar á inn­rás aukast dag frá degi.

„Rúss­neskur her­afli hefur nær um­kringt Úkraínu: norðan megin við landa­mærin við Belarus og Rúss­land, austan megin á yfir­ráða­svæðum Rúss­lands í landinu, vestan megin á landa­mærunum við Transnistiu og í suðri á Krím­skaga. Mark­mið Rúss­lands er að ná öllu landinu á sitt vald en að minnsta kosti að ná að tengja héruðin, Do­netsk og Luhansk, sem þau ráða yfir við Krím­skaga (sjá mynd). Land­fræði­leg tenging við Krím­skaga skiptir sköpum fyrir getu Rúss­lands til að ráða yfir skaganum í fram­tíðinni,“ skrifar Baldur.

Í öðru lagi nefnir hann að Rússar reyni nú að koma Úkraínu­stjórn frá völdum með alls­konar bola­brögðum annarri en inn­rás, þar á meðal með því láta stjórn­völd í Hvíta-Rúss­landi gera net­á­rásir á landið.

Í þriðja og fjórða lagi segir hann NATO ríkin ekki muni koma Úkraínu til varnar þar eð landið er ekki með­limur í At­lants­hafs­banda­laginu en hafi þó styrk varnir Úkraínu með því að senda þangað vopn og þjálfa her­lið.

Þjóð­verjar reyna að miðla málum

Í fimmta lagi segir Baldur Þjóð­verja gegna mikil­vægu hlut­verki við sátta­miðlun á milli Úkraínu og Rúss­lands. Þýsk stjórn­völd kjósi frekar að reyna að miðla málum heldur en að senda vopn til Úkraínu.

„Þarna fara þýsk stjórn­völd hefð­bundna leið sem þau hafa lengi stundað að reyna að miðla málum milli Rúss­lands og vest­rænna ríkja. Þýska­land er ekki leppur rúss­neskra stjórn­valda eins og haldið hefur verið fram. Þeir vilja allt til þess vinna að ekki komi til stríðs­á­taka og leggja því mikla á­herslu á við­skipti og góð sam­skipti við Rúss­land. Þýsk stjórn­völd standa með vest­rænum ríkjum í öllu sem varðar Úkraínu­deiluna nema vopna­sendingum þangað.“

Eystra­salts­ríkin, Eist­land, Lett­land og Litáen, hafa sent vopn til Úkraínu til að­stoðar við yfir­vofandi inn­rás og eru ýmsir uggandi yfir mögu­leikanum á að Rússar gætu einnig sýnt á sér klærnar gagn­vart þessum ríkjum, en þau eiga öll landa­mæri að Rúss­landi eða rúss­neskum land­svæðum.

Baldur full­yrðir þó að Rússar muni ekki ráðast inn í NATO ríki en Eystra­salts­löndin þrjú eru öll aðildar­ríki At­lants­hafs­banda­lagsins. Hann telur þó líkur á því að Rússar muni reyna að hafa á­hrif á þau lönd með því að ala á sundrung.

„Líkur eru hins vegar til þess að rúss­nesk stjórn­völd reyni enn frekar að ýta undir deilur í ríkjum þar sem stóra rúss­neska minni­hluta er að finna eins og í Lett­landi og Eist­landi - sem og í öðrum ríkjum í austur Evrópu. Þau munu reyna að virkja þessa hópa til að reyna ná völdum í löndunum með góðu eða illu (eins og með til­rauninni til valda­ráns í Svart­fjalla­landi 2016).“

Úkraínskir varaliðsmenn við heræfingar nálægt rússnesku landamærunum.
Fréttablaðið/EPA

NATO myndi bregðast við af hörku

Ef svo ó­lík­lega vildi til að Rússar ráðist inn í NATO ríki segir Baldur ekkert benda til annars en að At­lants­hafs­banda­lið myndi bregðast við af mikilli hörku. Þá segir hann enn mögu­leika á að ná sáttum í deilunni á milli Úkraínu og Rúss­lands.

„...en til þess að það gerist þurfa annað hvort stjórn­völd í Kreml að auka ítök sín í Úkraínu eða að ríki heims nái sam­stöðu um að koma á svo um­fangs­miklum við­skipta­þvingunum á Rúss­landi ef að til inn­rásar komi að það hverfi frá þeim á­formum.“

Að lokum nefnir Baldur mögu­leikann á því að Ís­land gæti orðið skot­spónn net­á­rása frá Rússum og lepp­ríkjum þeirra.

„Ís­land er skot­mark þegar kemur að net­á­rásum. Rúss­nesk stjórn­völd og leppar þeirra gætu hæg­lega gert al­var­legar net­á­rásir á Ís­land til kenna NATO ríkjunum lexíu,“ skrifar Baldur Þór­halls­son.