Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir líkurnar á því að Rússar ráðist inn í Úkraínu fara stigvaxandi. Tugþúsundir rússneskra hermanna eru nú staðsettir á landamærum Rússlands og Úkraínu og er það alþjóðasamfélagið uggandi yfir því að innrás sé yfirvofandi.
Baldur birti pistil á Facebook-síðu sinni í morgun þar sem hann metur hættuna á því að Rússar ráðist inn í Úkraínu og mögulegar netárás á Ísland í tíu atriðum. Í fyrsta lagi segir hann líkurnar á innrás aukast dag frá degi.
„Rússneskur herafli hefur nær umkringt Úkraínu: norðan megin við landamærin við Belarus og Rússland, austan megin á yfirráðasvæðum Rússlands í landinu, vestan megin á landamærunum við Transnistiu og í suðri á Krímskaga. Markmið Rússlands er að ná öllu landinu á sitt vald en að minnsta kosti að ná að tengja héruðin, Donetsk og Luhansk, sem þau ráða yfir við Krímskaga (sjá mynd). Landfræðileg tenging við Krímskaga skiptir sköpum fyrir getu Rússlands til að ráða yfir skaganum í framtíðinni,“ skrifar Baldur.
Í öðru lagi nefnir hann að Rússar reyni nú að koma Úkraínustjórn frá völdum með allskonar bolabrögðum annarri en innrás, þar á meðal með því láta stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi gera netárásir á landið.
Í þriðja og fjórða lagi segir hann NATO ríkin ekki muni koma Úkraínu til varnar þar eð landið er ekki meðlimur í Atlantshafsbandalaginu en hafi þó styrk varnir Úkraínu með því að senda þangað vopn og þjálfa herlið.
Þjóðverjar reyna að miðla málum
Í fimmta lagi segir Baldur Þjóðverja gegna mikilvægu hlutverki við sáttamiðlun á milli Úkraínu og Rússlands. Þýsk stjórnvöld kjósi frekar að reyna að miðla málum heldur en að senda vopn til Úkraínu.
„Þarna fara þýsk stjórnvöld hefðbundna leið sem þau hafa lengi stundað að reyna að miðla málum milli Rússlands og vestrænna ríkja. Þýskaland er ekki leppur rússneskra stjórnvalda eins og haldið hefur verið fram. Þeir vilja allt til þess vinna að ekki komi til stríðsátaka og leggja því mikla áherslu á viðskipti og góð samskipti við Rússland. Þýsk stjórnvöld standa með vestrænum ríkjum í öllu sem varðar Úkraínudeiluna nema vopnasendingum þangað.“
Eystrasaltsríkin, Eistland, Lettland og Litáen, hafa sent vopn til Úkraínu til aðstoðar við yfirvofandi innrás og eru ýmsir uggandi yfir möguleikanum á að Rússar gætu einnig sýnt á sér klærnar gagnvart þessum ríkjum, en þau eiga öll landamæri að Rússlandi eða rússneskum landsvæðum.
Baldur fullyrðir þó að Rússar muni ekki ráðast inn í NATO ríki en Eystrasaltslöndin þrjú eru öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins. Hann telur þó líkur á því að Rússar muni reyna að hafa áhrif á þau lönd með því að ala á sundrung.
„Líkur eru hins vegar til þess að rússnesk stjórnvöld reyni enn frekar að ýta undir deilur í ríkjum þar sem stóra rússneska minnihluta er að finna eins og í Lettlandi og Eistlandi - sem og í öðrum ríkjum í austur Evrópu. Þau munu reyna að virkja þessa hópa til að reyna ná völdum í löndunum með góðu eða illu (eins og með tilrauninni til valdaráns í Svartfjallalandi 2016).“

NATO myndi bregðast við af hörku
Ef svo ólíklega vildi til að Rússar ráðist inn í NATO ríki segir Baldur ekkert benda til annars en að Atlantshafsbandalið myndi bregðast við af mikilli hörku. Þá segir hann enn möguleika á að ná sáttum í deilunni á milli Úkraínu og Rússlands.
„...en til þess að það gerist þurfa annað hvort stjórnvöld í Kreml að auka ítök sín í Úkraínu eða að ríki heims nái samstöðu um að koma á svo umfangsmiklum viðskiptaþvingunum á Rússlandi ef að til innrásar komi að það hverfi frá þeim áformum.“
Að lokum nefnir Baldur möguleikann á því að Ísland gæti orðið skotspónn netárása frá Rússum og leppríkjum þeirra.
„Ísland er skotmark þegar kemur að netárásum. Rússnesk stjórnvöld og leppar þeirra gætu hæglega gert alvarlegar netárásir á Ísland til kenna NATO ríkjunum lexíu,“ skrifar Baldur Þórhallsson.