Ingunn Lára Kristjánsdóttir
ingunnlara@frettabladid.is
Sunnudagur 22. maí 2022
15.00 GMT

Hálft ár er liðið frá því að þorri almennings heyrði í fyrsta sinn að blóðmerahald væri stundað á Íslandi. Umræðan um velferð hryssa komst í hámæli eftir að dýraverndarsamtökin AWF/TSB (Animal Welfare Foundation/Tierschutzbund Zürich) birtu 20 mínútna heimildarmynd sem sýndi dýraníð við blóðtöku úr fylfullum hryssum.

Viðbrögðin voru hörð; undirskriftalistar og frumvarp um bann á blóðmerahaldi voru sett fram, hrossaeigendur um allan heim fordæmdu greinina, ráðherra setti á laggirnar starfshóp til að rannsaka blóðtöku og MAST hóf rannsókn á dýraníði á blóðtökubæjum. Skoðanakönnun Prósents sem gerð var fyrir Fréttablaðið tæplega fjórum vikum eftir birtingu myndbandsins sýndi að meirihluti þjóðarinnar væri andvígur blóðmerahaldi.

Mikil andstaða er við blóðmerahald hér á landi samkvæmt niðurstöðum skoðannakönnunar Prósents.

Þrátt fyrir að meirihluti þjóðarinnar sé andvígur blóðmerahaldi virðast litlar breytingar í vændum í þessum umdeilda iðnaði og minnkandi líkur á að blóðmerahald verði bannað. Frumvarp Ingu Sæland um bann á blóðtöku á fylfullum hryssum hefur ekki notið sérstaklega mikils stuðnings meðal þingmanna meirihlutans.

Fyrrverandi málsvari bænda bættist óvænt í starfshópinn

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra skipaði starfshóp í desember í fyrra til að fjalla um blóðtöku úr fylfullum hryssum til framleiðslu frjósemislyfja handa dýrum.

Á vef Stjórnarráðsins kom fram að verkefni starfshópsins væri aðskilið rannsókn Matvælastofnunar, sem stofnunin lauk í janúar í fyrra með því að vísaði málinu ásamt gögnum til lögreglu.

Starfshópurinn mun skila af sér skýrslu fyrir 1. júní næstkomandi. Þau gögn sem starfshópurinn hefur unnið með eru til að mynda ritrýndar greinar frá evrópska dýralæknasamtökunum, eftirlitsskýrslur Matvælastofnunar og umsagnir hagsmunaaðila á heimasíðu Alþingis við frumvarp Ingu Sæland um dýravelferð. Í hópnum eiga sæti:

  • Iðunn Guðjónsdóttir, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er formaður hópsins, skipuð án tilnefningar.
  • Sigríður Björnsdóttir, yfirdýralæknir í hrossasjúkdómum hjá Matvælastofnun (tilnefnd af MAST).
  • Ólafur Páll Jónsson, prófessor við Háskóla Íslands, tilnefndur af Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.

Sigurður Eyþórsson, sérfræðingur á skrifstofu landbúnaðar í matvælaráðuneytinu, bættist við sem starfsmaður starfshópsins í febrúar.

Starfshópurinn skilar af sér vinnu fyrir 1. júní.

Áður en Sigurður var ráðinn til ráðuneytisins var hann málsvari bænda, þar á meðal hrossabænda sem halda blóðmerar, sem framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Ekki var tilkynnt um að Sigurður hefði bæst við sem starfsmaður hópsins á vef Stjórnarráðsins en Dúi Jóhannsson, upplýsingafulltrúi Matvælaráðuneytisins, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið.

„Ekki var um sérstaka ráðningu að ræða þar sem Sigurður er starfsmaður ráðuneytisins og sinnir störfum innan þess. Sem slíkur var hann fenginn til að vinna fyrir hópinn líkt og venja er með starfsmenn ráðuneyta,“ sagði Dúi.

Aðspurður hvers vegna hann hafi bæst í hópinn segir Dúi að það hafi verið að ósk starfshópsins en ákvörðun skrifstofustjóra landbúnaðar.


„Þau telja að Matvælastofnun hafi ekki sinnt eftirliti sínu með blóðmerarhaldi nægilega vel.“


MAST reiðir sig á gögn frá hagsmunaaðila

Viðvera Sigríðar, yfirlæknis hjá MAST, í starfshóp ráðherra, hefur verið gagnrýnd.

„Samkvæmt mínum upplýsingum þá voru ein hagsmunasamtök sem funduðu með starfshópnum sem gagnrýndu viðveru Sigríðar í hópnum,“ segir Dúi.

„Það var á þeim grundvelli að þau telja að Matvælastofnun hafi ekki sinnt eftirliti sínu með blóðmerarhaldi nægilega vel.“

Samtök um dýravelferð á Íslandi er meðal þeirra sem hafa gagnrýnt aðkomu Sigríðar. Í fundargerð stjórnar SDÍ sem Fréttablaðið hefur undir höndum eru eftirlitsstörf MAST að blóðmerhaldi gagnrýnd.

„Við teljum það áhyggjuefni að innan starfshópsins er fulltrúi frá MAST. Dýralæknir sem komið hefur við eftirlitsstörf, leyfisveitingu og setið fundi með Ísteka um blóðmerahald og verið jákvæð gagnvart framleiðslunni undanfarin ár. Sigríður Björnsdóttir getur því alls ekki talist hlutlaus. Það hefði verið faglegra og eðlilegra að hlutlaus dýralæknir frá DÍ hefði fengið sæti í þessum hóp.”

Ítarleg grein Eggerts um blóðtöku frá árinu 1982

Sigríður hefur sinnt málefnum Ísteka í gegnum MAST, komið að leyfisveitingu og unnið nokkrar vísindagreinar og rannsóknir með Eggerti Gunnarssyni dýralækni og starfsmanni Ísteka. Eggert er einn upphafsmaður blóðmerahalds sem sinnir dýravelferðaeftirliti fyrir Ísteka og skrifaði rannsókn sem bæði Ísteka og MAST vísa í sér til stuðnings um að blóðtaka hafi ekki neikvæð áhrif á heilsu blóðmera.

Rannsóknin er óritrýnd grein frá árinu 1982 sem birtist í tímaritinu Frey, gefið út af Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda. Engin óháð rannsókn hefur verið gefin út sem staðfestir upphaflegu athugun Eggerts og sömuleiðis hefur engin rannsókn verið gerð á blóðmagni íslenska hestsins. Þetta staðfesti MAST í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Eggert Gunnarsson dýralæknir starfar hjá Ísteka. Hann skrifaði greinina sem bæði Ísteka og MAST vísa í sér til stuðnings um að blóðtaka hafi ekki neikvæð áhrif á heilsu blóðmera.

Sigríður talaði máli Ísteka á fundi hjá MAST þegar umsókn Ísteka um endurnýjum leyfis til blóðtöku var til umræðu. Í fundargerð MAST frá 25. apríl 2016 má sjá að Sigríður, eða Systa, vísaði í nokkurra ára gömul gögn frá Ísteka sér til stuðnings varðandi ákvarðanatöku um aukið eftirlit og auknar blóðtökur á fylfullum hryssum.

„Umræður um að gera kröfu um innra eftirlit Ísteka með framkvæmd blóðtökunnar og einnig mikilvægi opinbers eftirlits. Umræður um fáar sýnatökur til að fylgjast með blóðstatus, u.þ.b. 10 sýni í viku, en um 1.700 blóðtökur eru framkvæmdar á ári. Systa upplýsti að fyrirtækið hefði lagt fram gögn fyrir nokkrum árum sem sýndi að lítill sem enginn munur væri á hryssum sem væri tekið úr 7 sinnum og þeim sem tekið var úr 8 sinnum,“ segi í fundagerðinni.

Sigríður er höfundur skýrslu MAST um eftirlit með blóðmerahaldi sem kom út í apríl. Þar kemst hún að þeirri niðurstöðu að áfram megi taka 40 lítra af blóði úr hverri hryssa.

Í skýrslunni vísar MAST í tölur sem Ísteka og dýralæknar á launaskrá Ísteka hafa tekið saman. Upplýsingarnar eru því frá aðilum sem hagnast á áframhaldandi blóðtöku á fylfullum hryssum.

Björn M. Sigurjónsson, lektor við Dania-háskólann á Jótlandi, segir í samtali við Fréttablaðið að í skýrslu MAST sé erindi eins eftirlitsþega rekið af miklu offorsi.

„Ekki sér maður þetta í laxeldinu. Það er ákveðin ákvefð í MAST að ganga erinda eins fyrirtækis, í raun stórfurðulegt. Ekki myndi þessi stjórnsýslustofnun biðja sjávarútvegsfélög um upplýsingar um hversu margir fiskar séu í sjónum.“

Erlendir dýraverndarsinnar sem rannsökuðu blómerahald á Íslandi voru stöðvaðir af fulltrúum Ísteka sem sögðu þeim að fara aftur til síns heima.
Mynd: Skjáskot

Ísteka sat fund um hvernig eftirliti MAST yrði háttað

Árið 2020 komst MAST að þeirri niðurstöðu að blóðtaka úr hryssum til lyfjaframleiðslu væri ekki leyfisskyld starfsemi samkvæmt túlkun þeirra á lögum og reglugerðum.

Fulltrúar MAST og Ísteka funduðu í einn og hálfan tíma um þessa túlkun 25. maí árið 2020. Meðal þeirra sem sátu fundinn voru Sigríður og Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka.

Í fundargerðinni kemur fram að allir aðilar hafi verið sammála um túlkun MAST, um að ekki væri um leyfisskylda starfsemi að ræða. Þetta væri í samræmi við almenna tilhneigingu að fækka leyfum og að óvíst væri að málið yrði „nokkurn tímann tekið upp af löggjafanum.“

Þá vekur athygli að MAST ræddi við sjálfan eftirlitsþegann, Ísteka, um hvernig eftirliti yrði háttað og komust þau sameiginlega að niðurstöðu.

Í athugasemd um eina eftirlitsaðferð kemur fram: „Þessi leið er frekar veik gagnvart utanaðkomandi gagnrýni um að fyrirtækið setji sjálfu sér reglurnar.“

„Skilningur Ísteka og MAST fellur því vel saman,“ stendur neðst í fundargerðinni.

Fundargerð um fund MAST og Ísteka 25. apríl 2016.

„Fagráðið telur brýnt að blóðtaka úr hryssum verði gerð leyfisskyld og skilyrði MAST fyrir blóðtöku verði endurskoðuð.“


MAST ósammála fagráði um velferð dýra

Einu og hálfu ári eftir að MAST tók ákvörðun um að blóðmerahald yrði ekki leyfisskylt lengur, birtist myndband AWF.

Fagráð um velferð dýra, sem hefur það hlutverk að fylgjast með þróun dýravelferðarmála og upplýsa Matvælastofnun um mikilvæg málefni á sviði velferðar dýra, tók málið fyrir á fundi 24. nóvember í fyrra.

Ráðið tók fram að MAST hefði veitt þeim upplýsingar um að eftirlit væri með ágætum en að mynd dýraverndarsamtakanna hefði sýnt fram á að það eftirlit hefði ekki dugað til. Taldi fagráðið brýnt að blóðtaka yrði gerð leyfisskyld á ný.

„Fagráðið telur brýnt að blóðtaka úr hryssum verði gerð leyfisskyld og skilyrði MAST fyrir blóðtöku verði endurskoðuð. Sömuleiðis að tekið verði upp eftirlit af hálfu stjórnvalda sem dugir til að tryggja að dýrin þurfi ekki að upplifa aðfarir eins og þær sem sáust í heimildarmyndinni. Jafnframt beinir ráðið til ráðherra að athuga hvort setja ætti sérstaka reglugerð um þessa starfsemi vegna sérstöðu hennar miðað við annað hrossahald,“ segir í fundargerð Fagráðsins.

Sömuleiðis lagði fagráði til að Ísteka tæki upp myndefni af blóðtökunni sem og meðferð hryssanna í leiðingu að og frá tökubási eða öðru aðhaldi vegna blóðtökunnar.

„Þá leggur fagráðið til að fyrirtækið geri þessar upptökur aðgengilegar fyrir Matvælastofnun.“

Frjósemislyf er framleitt úr blóði íslenskra hryssa og notað í verksmiðjubúskap erlendis til að auka afkastagetu svína- og kúabúa. Á fjórða tuga lyfja úr gervihormónum eru til á markaðnum sem skila sama árangri og PMSG í að auka frjósemi í húsdýrum.
AWF/Getty images

Ísteka lofaði umbótum eftir birtingu myndbands AWF sem í meginatriðum snerust um:

  • Aukna fræðsla og þjálfun fyrir samstarfsbændur.
  • Fjölgun velferðareftirlitsmanna sem yrðu viðstaddir allar blóðgjafir.
  • Myndavélaeftirlit með öllum blóðgjöfum.

„Með þessu vonast forsvarsmenn fyrirtækisins til þess að ólíðandi frávik varðandi dýravelferð í blóðgjöf hryssna á Íslandi endurtaki sig ekki,“ sagði í yfirlýsingu Ísteka.

Þegar Fréttablaðið spurðist fyrir um myndavélaeftirlitið sagði Sigríður hjá MAST að slíkt myndavélaeftirlit væri óháð eftirliti MAST.

Mun MAST ekki sjá um myndavélaeftirlit?

„Nei, allt eftirlit MAST verður unnið af eftirlitsfólki sem mætir á staðinn,“ sagði Sigríður.

Frumvarp Ingu Sæland er ekki vinsælt meðal þingmanna meirihlutans.

Dýralæknar líktu blóðtöku við mjólkun

Þegar Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, lagði fyrst fram frumvarp um að banna blóðtöku úr fylfullum hryssum, var frumvarp hennar grafið í umsögnum. Dýralæknar á launaskrá Ísteka komu fram undir nafni og gagnrýndu frumvarpið.

Guðmar Aubertsson, dýralæknir sem hefur stundað blóðtöku frá árinu 2000, sagði engin vísindaleg rök benda til þess að blóðtaka væri skaðleg fyrir heilsu hryssa. Gestur Júlíusson og Elfa Ágústsdóttir dýralæknar sögðu blóðtökuna á pari við mjólkun, járningar eða rúning og sögðu engin vísindaleg rök hníga að því að hryssum yrði meint af óhóflegri blóðgjöf.

Hið rétta er að engar rannsóknir hafa verið gerðar á blóðmagni íslenska hestsins og gögn sem MAST hefur vísað í eru takmörkuð.

Í mælingum Ísteka á blóðrauðu blóðmera, sem fjallað er um í skýrslu MAST, er minna en tveggja prósenta úrtak. Dýralæknar sem unnu við mælingar hafa verið á launaskrá Ísteka og koma ekki fram undir nafni í skýrslunni, en eru kallaðir A,B,C,D og E. MAST hafði samband við dýralæknana til að sannreyna skráningu á afföllum og spurði þá út í gömul mál. Ekki kemur fram hvort skýrslur eða dagbækur hafi verið notaðar til staðfestingar og virðist MAST hafa treyst á minni þeirra fyrir skýrsluna. „Einn dýralæknanna mundi eftir að það hefði gerst í eitt skipti,“ kemur meðal annars fram.

Virginia Tech birti leiðbeiningar um blóðtöku hrossa og tók fram ekki eigi að taka meira en 7,5 prósent af heildarblóðmagni vikulega.

Erlendar ritrýndar rannsóknir ekki í samræmi við upplýsingar frá MAST

Til eru erlendar rannsóknir sem benda til þess að blóðtaka eins og sú sem er stunduð hér á landi hafi neikvæð áhrif á velferð hryssa.

Í grein Virginia Tech frá árinu 2017 er mælt gegn því að taka meira en 10 prósent af heildarmagni blóðs einu sinni í mánuði. Vikulegar blóðtökur ættu ekki að fara fram úr 7,5 prósentum af heildarblóðmagni.

Í annarri ritrýndri grein í vísindaritinu MDPI er mælt með því að þjálfa alla hesta sem þurfa að undirgangast blóðtöku en líkt og hefur áður komið fram eru blóðmerar á Íslandi ótamdar.

Í báðum greinum er sagt að 500 kílógramma hestur sé með um 37,5 lítra af blóði. Íslenskir hestar eru smágerðir, um 350 kílógrömm, og því afar ólíklegt að þeir séu með sama lítramagn og hross sem vegur hálft tonn.

Greinin heitir Recommendations for Ensuring Good Welfare of Horses Used for Industrial Blood, Serum, or Urine Prodcution. Þar er tekið sérstaklega fram að blóðflæði geti minnkað þegar hryssur verða fylfullar.

MAST hefur sagt að blóðmagn íslenska hestsins sé um 36-37 lítrar en það er ekki í samræmi við erlendar ritrýndar rannsóknir. Sömuleiðis segir MAST að blóðtakan, sem nemur fimm lítrum í senn, svari til um 14 prósenta af heildarblóðmagni. Ef rétt reynist, að íslenskir hestar séu með um 36-37 lítra af blóði, sem hefur ekki verið sannreynt, þá fer blóðtaka hér á landi fram úr meðmælum erlendra rannsakenda um að taka ekki meira en 7,5 prósent í vikulegum blóðtökum. Ef blóðmagn íslenska hestsins reynist minna fer blóðtaka á Íslandi langt fram úr verklagsreglum og meðmælum í greinum Virginia Tech og MDPI.

Bændur ekki í góðri stöðu gagnvart Ísteka

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók upp hanskann fyrir bændur í umræðum um frumvarp Ingu á Alþingi. Hann sagði fjölmiðlaumfjöllun kasta rýrð á ævistarf blóðmerabænda og að frumvarpið væri aðför að réttindum bænda.

„Rangfærslur og aðdróttanir að gjaldeyrisskapandi útflutningsgreinum er hættuleg atvinnufrelsi bænda og skaðar ímynd atvinnulífs, Alþingi og þjóðar,“ sagði Ásmundur í ræðu sinni 23. febrúar síðastliðinn.

Ásmundur Friðriksson og Guðrún Hafsteins, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, heimsóttu Höllu Bjarnadóttir, bónda á Ártúni sem heldur blóðmerar.

Vel lengi hefur blóðmerahald verið hliðarbúgrein samhliða hefðbundnum búrekstri en á síðustu fimm árum hefur starfsemin aukist til muna og hafa ýmsir bændur sett blóðframleiðslu í forgrunn rekstrar síns.

Ísteka tilkynnti í desember að fyrirtækið hefði rift samningum við hluta af samstarfsbændum sínum sem stunda blóðmerahald. Bændablaðið greindi frá því í apríl að frost væri í viðræðum bænda við Ísteka. Samningar væru enn lausir og viðræður þeirra á milli engar.

Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka, segir ekki ljóst hversu margir bændur verði með í framtíðinni eftir að samningum var rift. „En það skýrist þegar nær dregur hausti,“ sagði Arnþór í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Yfirgnæfandi meirihluti blóðbænda sögðu samningum lausum í febrúar en síðan þá hefur aðeins einn fundur verið haldinn og annar ekki boðaður.

Magnús Magnússon, bóndi á Staðarbakka í Vestur-Húnavatnssýslu, sagði í samtali við Bændablaðið að Hagsmunafélag hrossabænda hefði sent ítrekunarpóst til að fá fleiri fundi með það fyrir augum að landa samningi en án svara.

Ísteka hagnaðist um 592 milljónir árið 2020 og 507 milljónir 2019. Fyrirtækið, sem velti 1,7 milljörðum króna árið 2020, hefur lengi verið í góðum rekstri og greiddi sér 300 milljónir króna í arð sama ár. Í skýrslu AWF kemur fram að íslenskir bændur geti fengið um 65 þúsund krónur fyrir blóðið úr hverri hryssu á hverju sumri.

Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka.
Mynd: Ísteka

Bændur hafa kallað eftir frekara samtali við fulltrúa fyrirtækisins og krafist verðlagningar fyrir afurð sína. Halla Bjarnadóttir, bóndi á Ártúnum og stjórnarmeðlimur Í-ess bænda, hagsmunafélags blóðbænda á Suðurlandi, sagði við Bændablaðið að Ísteka fengi ekki blóð frá bændum fyrr nema með nýjum samningum. Halla gagnrýnir viðbrögð Ísteka eftir birtingu myndbands AWF, segir fyrirtækið hafa farið í felur og reynt að hvítþvo sig í stað þess að koma bændum og dýralæknum til hjálpar.

Verðið sem Ísteka hefur sett upp felur ekki í sér neinar verðhækkanir, einungis tilhliðranir að sögn blóðbænda.

„Við sjáum það svart á hvítu að staða blóðbænda gagnvart Ísteka er mjög veik,“ segir Halla.

Sigríður Jónsdóttir, bóndi sem heldur blóðmerar og er búfræðikandídat og náttúru- og umhverfisfræðingur, sagði við Bændablaðið í maí að hún ætlaði að hætta að halda blóðmerar. Hún hvetur Samkeppniseftirlitið til að rannsaka Ísteka.

„Afkoman af starfseminni engin, bara kostnaður,“ sagði hún.

Sigríður hefur skrifað margar greinar blóðtöku til varnar en nú segist hún ætla að leggja niður vopn. „Ef ég berðist áfram fyrir framtíð blóðmerabúskapar á Íslandi, væri ég bara að berjast fyrir Ísteka. Það fyrirtæki hefur ákveðið að bændur fái minna en ekkert í sinn hlut,“ sagði Sigríður við Bændablaðið.

Umræðan meðal blóðbænda sýnir að þau einu sem sitja eftir í sárum séu bændurnir sjálfir en ekki fyrirtækið sem hagnast mest á blóðmerahaldi.

„Annaðhvort eru eigendur Ísteka blindir og heyrnarlausir á eigin hegðun eða þeir eru vissir um að yfirvöld líti til þeirra með velþóknun og að þeir muni komast upp með þetta,“ sagði Sigríður bóndi við Bændablaðið.

Á nokkrum bæjum voru tekin myndbönd af bændum hýða merarnar með svipum, járnstöngum og viðarfjölum. Einnig sjást hundar glefsa og bíta í þær.
Mynd: AWF

Ísteka ræktar sérstakar merar

Lyfjatæknifyrirtækið rekur þrjár starfsstöðvar fyrir blóðtöku og eru 283 blóðmerar í eigu fyrirtækisins. Fyrirtækið skoðar ýmsar aðferðir til að hámarka afköst meðal annars með því að rækta merar sem eru með hormónið eCG sem lengst í blóðinu.

„Við ræktun á hryssum til blóðgjafa er helst litið til þess hve lengi hormónið finnst í mæðrum þeirra og þá valið fyrir þeim sem það finnst lengur í fremur en skemur. Einnig er litið til hegðunarþátta og þá þekkist vel að bændur hafi sín eigin ræktunarmarkmið sem líka er litið til, t.a.m. sérstaka liti,“ segir Arnþór.

Ísteka ræktar merar sem framleiða sem mest af hormóninu ecG, einnig þekkt sem PMSG.
Fréttablaðið/Samsett mynd

Telur blóðmerahald hafa verið stundað í óleyfi frá 2020

Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði í svari á vef Alþingis að um blóðmerahald giltu að lög um velferð dýra og reglugerð um velferð hrossa.

Söfnun merablóðs til lyfjaframleiðslu féll undir reglugerð um dýratilraunir til ársins 2020 þrátt fyrir að reglugerðin heimili ekki að nota lifandi dýr við framleiðslu efna eða lyfja nema með sérstöku leyfi tilraunadýranefndar.

Tilraunadýranefnd var lögð niður árið 2017 og í hennar stað tók Fagráð um velferð dýra við sem lögbundinn umsagnaraðili um dýratilraunir. Í stað reglugerðar um dýratilraunir kom reglugerð um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni. MAST taldi engin sambærileg ákvæði í þeirri reglugerð og að starfsemin félli ekki lengur þar undir. Sömuleiðis taldi MAST að blóðmerahald félli ekki undir dýravelferðarlög um leyfi fyrir notkun og aflífun tilraunadýra þar sem tilraunadýr væru hvergi skilgreind í löggjöf.

Þar með komst MAST að þeirri niðurstöðu árið 2020 að blóðtaka úr hryssum til lyfjaframleiðslu væri ekki leyfisskyld starfsemi.

Lög um dýravelferð hafa breyst mikið í gegnum árin. Frumvarp Ingu Sæland um að banna blóðmerahald er til umræðu en ólíklegt er að meirihlutinn greiði með því.
Fréttablaðið/Anton Brink

Björn M. Sigurjónsson lektor telur að blóðmerahald hafi verið stundað í bága við lög um tveggja ára skeið frá því að síðasta leyfi Ísteka til blóðtöku rann út árið 2020. Sama ár komst MAST að þeirri niðurstöðu að starfsemin væri ekki leyfisskyld.

„Í millitíðinni verða lagaskil,“ sagði Björn, „fyrst með setningu nýrra dýraverndarlaga frá 2013 þar sem segir mjög skýrt að ekki megi gera tilraunir eða framleiða lyf úr lifandi dýrum. Ári seinna kom svo ný reglugerð um hestahald sem kveður á um að ekki megi gera aðgerðir á hestum nema í læknisfræðilegum tilgangi, sem tók af allan vafa í þessum efnum,“ segir Björn.

Hann segir málið mjög skýrt, blóðtaka sé ekki lengur leyfisskyld af því að nýjar reglur og lög gera ekki ráð fyrir henni – og það geri hana sjálfkrafa óheimila.

Athugasemdir