Líkur á að ríkið selji síðasta hlut sinn í Ís­lands­banka hafa minnkað eftir þann á­fellis­dóm sem birtist í skýrslu Ríkis­endur­skoðunar. Ríkis­stjórnin hefur að mati stjórnar­and­stæðinga sýnt að henni er ekki treystandi til að selja ríkis­eignir.

„Ég vonast til að það verði haldið á­fram með söluna en þá þarf miklu meira traust og trú­verðug­leika,“ segir Þor­gerður Katrín Gunnars­dóttir, for­maður Við­reisnar.

„Við þurfum á þessum 75 milljörðum að halda. Ætlar ríkis­stjórnin ef hún selur ekki að fara í niður­skurð upp á 75 milljarða, eða hækka vaxta­gjöld með auknum skuldum? Þetta er risa­mál og alveg með ó­líkindum að stjórnin hafi sjálf sett sig í þessa að­stöðu,“ bætir hún við.

Líkurnar á sölu næsta ár hafa snar­minnkað að mati Björns Levís Gunnars­sonar, þing­manns Pírata.

„Ef þessi stjórn­völd ætla að búa til nýtt fyrir­komu­lag eftir að hafa klúðrað því gamla þegar stað­reyndin er að þau klúðruðu þessu með því að fara ekki að lögum þá þýðir ekki að búa til ný lög,“ segir hann.

„Það er ekki séns í hel­víti að þau nái að skapa traust um að selja bankann á næsta ári, það yrðu brjáluð læti, það myndi fara af stað risa­vaxið öskur í sam­fé­laginu ef þau svo mikið sem reyna það,“ segir Björn Leví.

Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, for­maður Mið­flokksins, segir að líkurnar séu „nánast engar“ á að sala Ís­lands­banka verði kláruð næsta ár í ljósi liðinna at­burða. Betra væri ef stjórnin myndi af­henda al­menningi hlut sinn í bankanum. Tíma­setning þess sé þó síðri en ef það hefði verið gert fyrr. Sig­mundur Davíð segir að skoða verði allt sölu­ferli bankanna, einnig Arion banka.

Í fjár­laga­frum­varpi Bjarna Bene­dikts­sonar er gert ráð fyrir að af­gangurinn af bréfum ríkisins í bankanum verði seldur næsta ár. Á­ætlaðar heild­­­ar­­­­tekjur rík­­­is­­­­sjóðs rýrna um 75,8 milljarða ef ekki verður selt. Af­leiðingar yrðu aukin lán­taka vegna skulda, að skuldir yrðu greiddar hægar upp en á­ætlun gerði ráð fyrir sem þýðir hærri vaxta­kostnað eða niður­skurður.

Krist­rún Frosta­dóttir, for­maður Sam­fylkingarinnar, segir að svo mörgum spurningum sé ó­svarað eftir skýrsluna að eina leiðin til að skapa traust á ný sé skipun opinnar rann­sóknar­nefndar.

„For­sætis­ráð­herra segir að þetta mál snúist aðal­lega um hag­kvæmni í rekstri ríkisins en það er ekki rétt, málið snýst um hvort ráð­herra fór eftir lögum sem Al­þingi setti um sölu á eignar­hlutum ríkisins,“ segir Krist­rún.

„Ég veit ekki hvort það kom mér á ó­vart að Katrín hefur varið Bjarna,“ svarar Krist­rún að­spurð. „En við­brögðin eru mikil von­brigði og sýna á­kveðið for­ystu­leysi,“ segir Krist­rún, enda þurfi þjóðin skýrari svör. Hún segir að krafa um sam­stöðu innan ríkis­stjórnarinnar virðist blinda sýn.

„Prinsippin virðast fokin út um gluggann,“ segir Krist­rún, enda sé málið miklu stærra en nemi póli­tískum flokka­dráttum eða banda­lögum.

Í um­ræðum um skýrsluna á Al­þingi í gær kom til snerru milli Bjarna Bene­dikts­sonar og Þórunnar Svein­bjarnar­dóttur, formanns eftir­lits- og stjórn­skipunar­nefndar þingsins. Þórunn boðaði frekari rann­sókn nefndarinnar þar sem Bjarni, full­trúar Banka­sýslunnar, Ís­lands­banka og fleiri yrðu kallaðir til frekari svara. Bjarni taldi málinu lokið, enda kæmi ekkert fram í skýrslunni um að lög­brot hefðu verið framin. Hann taldi Þórunni fara of­fari en hún sakaði hann á móti um að reyna að slá ryki í augu þings og al­mennings.

Sig­mar Guð­munds­son, Við­reisn, sagði í þing­um­ræðunni að yfir 80 prósent þjóðarinnar teldu sam­kvæmt könnun að sölunni hefði verið á­bóta­vant. Bak­land sam­starfs­flokka Bjarna logaði vegna van­trausts.