Líkur á að ríkið selji síðasta hlut sinn í Íslandsbanka hafa minnkað eftir þann áfellisdóm sem birtist í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ríkisstjórnin hefur að mati stjórnarandstæðinga sýnt að henni er ekki treystandi til að selja ríkiseignir.
„Ég vonast til að það verði haldið áfram með söluna en þá þarf miklu meira traust og trúverðugleika,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
„Við þurfum á þessum 75 milljörðum að halda. Ætlar ríkisstjórnin ef hún selur ekki að fara í niðurskurð upp á 75 milljarða, eða hækka vaxtagjöld með auknum skuldum? Þetta er risamál og alveg með ólíkindum að stjórnin hafi sjálf sett sig í þessa aðstöðu,“ bætir hún við.
Líkurnar á sölu næsta ár hafa snarminnkað að mati Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata.
„Ef þessi stjórnvöld ætla að búa til nýtt fyrirkomulag eftir að hafa klúðrað því gamla þegar staðreyndin er að þau klúðruðu þessu með því að fara ekki að lögum þá þýðir ekki að búa til ný lög,“ segir hann.
„Það er ekki séns í helvíti að þau nái að skapa traust um að selja bankann á næsta ári, það yrðu brjáluð læti, það myndi fara af stað risavaxið öskur í samfélaginu ef þau svo mikið sem reyna það,“ segir Björn Leví.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að líkurnar séu „nánast engar“ á að sala Íslandsbanka verði kláruð næsta ár í ljósi liðinna atburða. Betra væri ef stjórnin myndi afhenda almenningi hlut sinn í bankanum. Tímasetning þess sé þó síðri en ef það hefði verið gert fyrr. Sigmundur Davíð segir að skoða verði allt söluferli bankanna, einnig Arion banka.
Í fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar er gert ráð fyrir að afgangurinn af bréfum ríkisins í bankanum verði seldur næsta ár. Áætlaðar heildartekjur ríkissjóðs rýrna um 75,8 milljarða ef ekki verður selt. Afleiðingar yrðu aukin lántaka vegna skulda, að skuldir yrðu greiddar hægar upp en áætlun gerði ráð fyrir sem þýðir hærri vaxtakostnað eða niðurskurður.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að svo mörgum spurningum sé ósvarað eftir skýrsluna að eina leiðin til að skapa traust á ný sé skipun opinnar rannsóknarnefndar.
„Forsætisráðherra segir að þetta mál snúist aðallega um hagkvæmni í rekstri ríkisins en það er ekki rétt, málið snýst um hvort ráðherra fór eftir lögum sem Alþingi setti um sölu á eignarhlutum ríkisins,“ segir Kristrún.
„Ég veit ekki hvort það kom mér á óvart að Katrín hefur varið Bjarna,“ svarar Kristrún aðspurð. „En viðbrögðin eru mikil vonbrigði og sýna ákveðið forystuleysi,“ segir Kristrún, enda þurfi þjóðin skýrari svör. Hún segir að krafa um samstöðu innan ríkisstjórnarinnar virðist blinda sýn.
„Prinsippin virðast fokin út um gluggann,“ segir Kristrún, enda sé málið miklu stærra en nemi pólitískum flokkadráttum eða bandalögum.
Í umræðum um skýrsluna á Alþingi í gær kom til snerru milli Bjarna Benediktssonar og Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns eftirlits- og stjórnskipunarnefndar þingsins. Þórunn boðaði frekari rannsókn nefndarinnar þar sem Bjarni, fulltrúar Bankasýslunnar, Íslandsbanka og fleiri yrðu kallaðir til frekari svara. Bjarni taldi málinu lokið, enda kæmi ekkert fram í skýrslunni um að lögbrot hefðu verið framin. Hann taldi Þórunni fara offari en hún sakaði hann á móti um að reyna að slá ryki í augu þings og almennings.
Sigmar Guðmundsson, Viðreisn, sagði í þingumræðunni að yfir 80 prósent þjóðarinnar teldu samkvæmt könnun að sölunni hefði verið ábótavant. Bakland samstarfsflokka Bjarna logaði vegna vantrausts.