Angjelin Mark Sterkaj var einn dæmdur fyrir morðið á Armando Beqirai í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Dómurinn sýknaði hin þrjú sem ákærð voru.Að mati dómsins á Angjelin sér engar málsbætur og var refsing hans ákveðin sextán ára fangelsi.

Þau þrjú sem sýknuð voru í málinu eru öll að íhuga framhaldið með verjendum sínum. Enn liggur ekki fyrir hvort ríkissaksóknari ákveður að áfrýja sýknudómum til Landsréttar en verði þetta lokaniðurstaða málsins má búast við að einhver bótamál gegn ríkinu verði höfðuð, ekki aðeins af hálfu þeirra sem ákærð voru og sýknuð í gær, heldur fengu á annan tug einstaklinga réttarstöðu sakbornings í málinu meðan það var til rannsóknar og gætu einhver þeirra einnig átt bótarétt.

Við aðalmeðferð málsins í september neituðu þau þrjú sem síðan voru sýknuð alfarið sök. Verjendur þeirra höfnuðu því að unnt væri að dæma þau fyrir morð á grundvelli samverknaðar þar sem játning Angjelin Sterkaj lægi fyrir og ekkert þeirra þriggja hefði komið með beinum hætti að skotárásinni.

Um samverknaðinn segir í dóminum að ekkert þeirra fjögurra sem ákærð voru hefði borið um að þau hefðu rætt saman um manndrápið fyrir fram og þau hefðu þannig öll, eða hvert og eitt þeirra, vitað eða mátt vita að ákærði, Angjelin, myndi svipta Armando lífi er hann fór til fundar við hann nærri miðnætti laugardagskvöldið 13. febrúar síðastliðinn. Angjelin hafi játað sök og kvaðst hafa verið einn að verki og meðákærðu hefðu ekki átt hlut að máli. Þau hin hafi öll þrjú neitað sök frá upphafi.

Verjendur ákærðu í dómsal Héraðsdósm Reykjavíkur í gær.
Fréttablaðið/Anton

„Þú getur bókað það að það verði eftirmál,“ sagði Geir Gestsson, verjandi Murat Selivrda, eftir að dómur var kveðinn upp í gær. Hann er ánægður með niðurstöðu héraðsdóms.

„Við erum sátt og þetta er rétt niðurstaða. Gögnin sýndu ekki fram á sekt hans.“ Aðspurður um möguleg eftirmál segir Geir ljóst að skjólstæðingur hans muni krefja ríkið um bætur fyrir gæsluvarðhald og aðrar þvingunaraðgerðir sem fylgt hafa morðákæru á hendur honum.

Geir nefnir sérstaklega skýrslu lögreglu í málsgögnunum sem innihélt meðal annars kenningar lögreglu um samverknað þeirra þriggja án stoðar í öðrum gögnum málsins. Þar hafi hlutur skjólstæðings hans verið ýktur stórkostlega að tilefnislausu.Í forsendum dómsins er einmitt vikið sérstaklega að þessari skýrslu með kenningum lögreglu sem ekki eigi stoð í öðrum málsgögnum.

Verjendur dvöldu lengi við umrædda skýrslu við aðalmeðferð málsins og spurðu lögreglumanninn sem hana ritaði ítarlega um hana. Dómarinn blandaði sér sjálfur í umfjöllun um skýrsluna og ljóst varð þá þegar að hann virtist hafa ýmislegt við hana að athuga.

Um skýrsluna segir í dóminum: „Í skýrslunni er meðal annars að finna kafla sem ber heitið kenningar lögreglu og niðurlag. Þar er sett fram kenning, óháð framburði sakborninga, eins og segir. Þá er í niðurlaginu umfjöllun um skilyrði samverknaðar. Að mati dómsins hefur lögreglan við gerð skýrslunnar ekki gætt meginreglunnar um hlutlægnisskyldu lögreglunnar og sem henni bar að gera og er það ámælisvert.“