Þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins, gerðu grín að Freyju Haraldsdóttur í samtali sínu á barnum Klaustur í síðustu viku. Einn þeirra líkti eftir hljóði úr sel, þegar hún var til umræðu. DV greinir frá þessu.

Í samtalinu sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að tveir menn (sennilega Karl Gauti og Bergþór, sem sátu með þeim við borðið) hafi það sameiginlegt að hafa sérstakan áhuga á tveimur konum; Freyju og Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingkonu Samfylkingarinnar. „Þetta eru konur sem sameinast í tvo menn,“ sagði Sigmundur við sessunauta sína. Þegar Freyja var nefnd heyrðist einhver skrýkja og herma þannig eftir hljóði úr sel.

Í samtalinu hæddust þingmennirnir að MeToo-byltingunni. Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason greindu báðir frá því að Albertína hefði gengið mjög hart á þá með kynlíf, á tveimur ólíkum samkomum. Bergþór lét þau orð falla, spurður hversu hart hún hefði gengið fram, að hún hefði verið að „tosa buxurnar“ af hælunum á honum. Hann hefði vaknað nærbuxnalaus.

Gunnar Bragi lýst því í samtalinu að Albertína hefði brugðist illa við þegar hann hefði neitað henni um kynlíf. „Þá var bara eins og einhver hefði verið líflátinn. Hún var brjáluð, hún trylltist, hún grenjaði og öskraði. Ég bara hugsaði, hvað, á ég að ríða henni? Það var algjörlega kreisí.“

Stundin hefur eftir Albertínu að Gunnar Bragi hafi hringt í sig og beðist afsökunar á ummælum sínum. Ekkert sem fram hafi komið um hana í samtalinu hafi átt við rök að styðjast. „Það er hrikalegt að vera ásakaður um eitthvað sem gerðist ekki,“ er haft eftir Albertínu. 

Hún segist ekki kannast við atburðina sem þingmennirnir tveir lýstu. „Ég er eiginlega bara kjaftstopp. Mér er rosalega illt í hjartanu yfir öllum þessum samtölum sem þeir áttu þarna. Ég er hreinlega orðlaus. Þetta er bara ekki rétt.“