Óttar Sveins­son er gestur Sig­mundar Ernis í nýjasta þætti Manna­máls sem sýndur verður á Hring­braut á morgun, fimmtu­dag, klukkan 19:00 og endur­sýndur klukkan 21:00.

Óttar er þekktastur sem höfundur og út­gefandi Út­kalls­bókanna. Fyrsta bókin í þessari geysi­vin­sælu bóka­röð kom út árið 1994 og er tuttugasta og áttunda bókin ný­komin út.

Út­kalls­bækurnar eru á­vallt á lista yfir mest seldu bækurnar á hverju ári og hafa vin­sældir þeirra veitt Óttari viður­nefnið „Út­kallinn.“ Bækurnar fjalla um ýmis á­föll og björgunar­að­gerðir sem Ís­lendingar kannast við, en einnig þau sem minna þekkt eru.

Mikil­vægt að ræða á­föllin

Óttar hefur sjálfur upp­lifað hræði­legt á­fall á sinni lífs­leið en hann missti Jóhönnu systur sína af slys­förum árið 1995, ári eftir að fyrsta Út­kalls­bókin kom út.

Óttar var að undir­búa sig fyrir sjónvarpsviðtal á meðan dóttir hans beið heima, afar spennt fyrir því að sjá pabba sinn í sjón­varpinu:

„Þá hringir síminn og það er pabbi. Hann segir mér að Jóhanna hafi lent í slysi í Frakk­landi. Hún bjó þar. Hún var á hjóli, var að fara niður brekku og gat ekki stoppað sig,“ segir Óttar og finnst erfitt að lýsa at­vikinu.

Við fengum ofsa­lega mikla hlýju og stuðning frá mikið af fólki. En ég talaði mjög mikið, sér­stak­lega við eina frænku mína, móður­systur.

Hann segir það vera bestu leiðina til þess að komast yfir á­föll, að tala og ræða um at­vikin. Óttar hefur séð það í­trekað frá fyrstu hendi, sér­stak­lega hvað varðar Út­kalls­bækurnar. Þar eru við­töl og frá­sagnir frá fólki sem lent hefur í lífs­háska og upp­lifað ýmis á­föll.

Sigmundur Ernir ræðir við Óttar í nýjasta þætti Mannamáls á Hringbraut.
Mynd\Hringbraut

Þá segir Óttar að auð­veldara sé fyrir hann að ræða frá­fall systur sinnar í dag heldur en áður: „Ef þú hefðir spurt mig fyrir tíu árum þá hefði ég senni­lega bara brostið í grát hérna, ég skal alveg viður­kenna það. Af því ég var ekki búinn að af­greiða það eins vel. Þetta kemur alltaf jafn mikið við mann, en maður er að lýsa til­finningunum og þegar til­finningarnar koma út, þá erum við að lækna okkur. Við þurfum stundum að gera það aftur og aftur og aftur og við erum að gera það sem við getum til þess að við getum sem best lifað með sorginni yfir því að missa ást­vin.“

Ör­laga­ríkur sál­fræði­tími

Óttar segist finna fyrir nær­veru systur sinnar: „Ég finn alltaf fyrir henni. Sér­stak­lega fyrstu sex mánuðina, hún var bara hjá mér. Ég er með mynd á nátt­borðinu af henni tveggja ára, ein­hverra hluta vegna valdi ég þá mynd. Hún hefur alltaf fylgt mér og það er gott.“

Þá segir hann frá sál­fræði­tíma sem snerist skyndi­lega út í um­ræðu um systur sína: „Leið­beinandinn beinir mér inn á þá braut að finna mér ein­hvern góðan stað, óska­stað, sem mér finnst frá­bær. Ég valdi mér stað fyrir austan, á Laugar­vatni, úti á báti. Síðan segir hann mér að hugsa um ein­hvern sem ég vildi að kæmi til mín. Hver kom? Auð­vitað Jóhanna,“ segir Óttar.

Hann segist hafa átt nota­lega stund á bátnum með Jóhönnu og segir henni þar hvað hann sakni hennar mikið: „Mér fannst ég fá það sama til baka. Og hvað er maður að gera þarna? Maður er auð­vitað að koma til­finningunum sínum á­fram,“ segir Óttar.

Hann bætir við: „Ég er oft búinn að fara út á þennan bát eftir þetta. Þessi bátur er góður.“