Eldri borgarar hafa skilning á hollensku leiðinni þegar kemur að svokallaðri dánaraðstoð eða líknardrápi. Þetta kemur fram í umsögn félags eldri borgara vegna þingsályktunartillögu sjö þingmanna um dánaraðstoð. Hollenska leiðin felur að sögn í sér að fólk hafi val um líknardráp „ef um mjög alvarlega sjúkdóma er að ræða sem svipta menn og konur öllu eðlilegu lífi,“ eins og segir í umsögn formannsins, Þórunnar Sveinbjarnardóttur.

Tillagan felur í sér að Alþingi feli heilbrigðisráðherra að taka saman upplýsingar um dánaraðstoð og þróun lagaramma um hana þar sem hún er leyfð. Tekin verði saman tíðni, ástæður og skilyrði dánaraðstoðar og hver reynslan hefur verið.

Þá felur tillagan í sér að athugað verði hvort unnið sé að lagabreytingum eða hvort umræða fari fram í ríkjum þar sem dánaraðstoð er ekki leyfð, svo sem á Norðurlöndum, Þýskalandi og Kanada. Þá verði gerð skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsmanna um afstöðu þeirra til dánaraðstoðar; „annars vegar hvort starfsmenn telji dánaraðstoð vera réttlætanlega í ákveðnum tilfellum og hins vegar hvort þeir væru tilbúnir að verða við slíkri ósk að uppfylltum skilyrðum og að því gefnu að það samræmdist íslenskum lögum.“

Skýrslu verði skilað í ágúst

Skýrslu um málið á samkvæmt tillögunni að skila fyrir ágústlok en að henni standa þingmennirnir Bryndís Haraldsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson og Bergþór Ólason. 

Óskað er eftir umsögnum fimmtíu og átta félaga og stofnana. Þrjár hafa borist.

Getur haft sálræn áhrif á starfsfólk

Alþýðusamband Íslands bendir á að nauðsynlegt sé að huga að réttarstöðu og velferð þess launafólks sem með einum eða öðrum hætti koma að eða verða vitni að dánaraðstoð. „Jafnframt þarf að hafa í huga, að dánaraðstoð getur haft áhrif á sálrænt vinnuumhverfi allra þeirra stétta sem að umönnun sjúkra og þjónustu koma,“ segir í umsögninni. Sambandið hafi þó ekki mótað sér sérstaka stefnu í þessum málum en styður þó að fram fari upplýst ig opin umræða um málefnið.

Spurt hver eigi að ráða

Landssamband eldri borgara segir að á ráðstefnu um málefnið hafi komið fram mjög ólík sjónarmið um dánaraðstoð. Eldri borgarar virðist þó hafa skilning á hollensku leiðinni „þar sem fólk fær að velja ef um mjög alvarlega sjúkdóma er að ræða sem svipta menn og konur öllu eðlilegu lífi“ eins og segir í umsögn formannsins, Þórunnar Sveinbjarnardóttur.

Í umsögninni er spurt hver eigi að ráða; sjúklingurinn sjálfur, læknar eða aðstandendur sjúklingsins, sem oft þurfi að taka ákvörðun um líknandi meðferð í lokin „en ekki að endurlífga fólk til vesældar þeim og öðrum til mjög djúprar sorgar.“

Siðmennt fylgjandi tillögunni

Siðmennt, félag húmanista á Íslandi, hvetur alþingi til að samþykkja tillöguna. Mikilvægt sé að stjórnvöld safni upplýsingum um stöðu þessara mála í öðrum löndum og svo um afstöðu heilbrigðisstarfsfólks. „Mikilvægt er að stjórnvöld safni þeim upplýsingum saman og setji fram á skýran og hlutlausan hátt.“