Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir Klaustursmálið hafa haft talsverð áhrif á samskipti einstaklinga sem starfa á Alþingi. Segir hann í viðtali við Morgunblaðið í dag að hann hafi átt samtöl við fjölda fólks um málið, einkum þolendur.

„Það er ekki hægt að horfa fram hjá því. Marg­ir voru dregn­ir inn í umræðuna, stór hóp­ur báðum meg­in frá; þeir sem sátu þarna á Klaustri og fjöl­marg­ir nafn­greind­ir, þar á meðal úr hópi þing­manna. Þetta var ekki góður at­b­urður inn í and­rúms­loftið á vinnustaðnum,“ sagði Stein­grím­ur.

Líkt og fram kom í fréttum í gær staðfesti forsætisnefnd þingsins, sem samanstóð af Stein­unni Þóru Árna­dótt­ur og Har­aldi Bene­dikts­syni, 7. og 8. varaforseta þingsins, úrskurð siðanefndar um að Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins, hefðu brotið siðareglur þingsins með ummælum sínum á Klaustur bar þann 20. nóvember í fyrra. Ummælin voru tekin upp af Báru Halldórsdóttur, sem var á staðnum fyrir tilviljun, og síðan komið til DV og Stundarinnar.

Gunnar Bragi, Bergþór og hinir fjórir þingmennirnir sem gerðust ekki brotlegir við siðareglur, andmæltu niðurstöðunni kröftuglega.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, beindi spjótum sínum að Steingrími í kvöldfréttum RÚV í gær þegar hann lýsti málinu sem sneypuför. „Og láta þessa sneypuför forseta Alþingis og félaga hans okkur að kenningu verða svo að svona hlutir endurtaki sig ekki,“ sagði Sigmundur.

Steingrímur vonast þó til að niðurstaða forsætisnefndar í gær verði til bóta.

„Mér þykir því miður lík­legt að þetta sé ekki allt gleymt. Menn verða að vinna úr þessu bara.“