Dr. Ant­hony Fauci, sótt­varna­læknir Banda­ríkjanna og helsti ráð­gjafi for­setans, telur að í næstu viku verði hægt að af­létta banni á bólu­efni fyrir­tækisins John­son & John­son. Hann sagði í við­tali á NBC í dag að hann eigi von á því að á­kvörðun í málinu liggi fyrir á föstu­dag jafn­vel.

„Mitt mat er að við munum geta haldið á­fram að nota það í ein­hverri mynd. Ég efast stór­lega um að því verði af­lýst. Ég held að það gerist ekki. Ég held að það sé lík­legt að það verði ein­hvers konar við­vörun eða tak­mörkun eða á­hættu­mat,“ sagði Fauci í þættinum „Meet the Press“ á NBC.

Sex tilfelli rannsökuð

Í síðustu viku lögðu banda­rísk heil­brigðis­mála­yfir­völd til að bólu­efni Jans­sen yrði hætt tíma­bundið í notkun á meðan sex til­felli sjald­gæfra blóð­tappa í konum væru rann­sökuð. Til­fellin eru sex af um sjö milljón sem hafa fengið bólu­efnið í Banda­ríkjunum. Sex konur á aldr­­in­­um 18 til 48 ára ból­­u­­sett­­um með efn­­in­­u hafa fengið blóðtappa í Bandaríkjunum. Þar af hef­­ur ein lát­­ist af völd­­um blóð­t­app­­a. Evrópsk­a lyfj­a­stofn­un­in vinn­ur nú að rann­sókn á ból­u­efn­in­u og mög­u­leg­um auk­a­verk­un­um.

Ekki liggur fyrir hve­nær verður hægt að byrja að bólu­setja með bólu­efni Jans­sen á Ís­landi en í kjöl­far á­kvörðunar banda­rískra yfir­valda var á­kveðið að fresta bólu­setningu með bólu­efni Jans­sen á Ís­landi. Fyrstu skammtarnir komu til landsins síðasta mið­viku­dag. Að­eins þarf eina sprautu af bólu­efni Jans­sen ó­líkt öðrum bólu­efnum gegn kórónu­veirunni.

Helmingur fullorðinna bólusettur

Sótt­varna­yfir­völd í Banda­ríkjunum eiga fund á föstu­dag í næstu viku til að á­kveða hver næstu skref eru varðandi bólu­efnið. Fauci sagði að hann vissi ekki hver loka­á­kvörðunin verði en hann telji lík­legt að það verði hægt að byrja að nota bólu­efnið að nýju.

„Ég veit ekki hvort það hafi verið fleiri til­felli. Við vitum það fyrir föstu­dag og ég verð mjög hissa … ef það verður ekki byrjað að nota það í ein­hverri mynd aftur fyrir föstu­dag. Á­kvörðunin verður alveg örugg­lega komið fyrir föstu­dag,“ sagði hann svo í þættinum Face the Nation á CBS.

Þá greindi hann einnig frá því að brátt yrði lögð fram tíma­lína um hve­nær ætti að bólu­setja börn í Banda­ríkjunum en í er­lendum miðlum í dag var einnig greint frá því að búið er að bólu­setja helming full­orðinna í Banda­ríkjunum.

„Ég verð hissa ef það verður ekki hægt að bólu­setja mennta­skóla­krakka fyrir haust­önnina,“ sagði hann á CBS. „Ég held að á fyrsta árs­fjórðungi 2022 munum við geta bólu­sett börn á öllum aldri, vonandi fyrr,“ bætti hann við og sagði að það væri í síðasta lagi þá.

Greint er frá á Reuters.