Eins og stendur eru tíu í haldi lögreglunnar vegna rannsóknar þeirra á stunguárásinni á Bankastræti Club fyrir viku síðan. Átján hefur verið sleppt úr haldi sem hafa verið handteknir vegna rannsóknar lögreglu á málinu.

„Við töldum ekki þörf á að gera kröfu á það. Við höfum líka sleppt aðilum úr gæslu sem voru úrskurðaðir síðustu helgi,“ segir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn en þeir tíu sem eftir eru voru ýmist úrskurðaðir í gæsluvarðhald í eina viku eða tvær.

Eru þeir sem eftir eru þeir sem þið helst grunið um verknaðinn á Bankastræti Club?

„Já, það eru aðalsprauturnar,“ segir Margeir og að lögreglan skoði nú hvaða ástæður hafi verið fyrir árásinni og sjái hvert það leiði hana.

Lögreglan hefur nú til rannsóknar hvort að reyksprengju sem kastað var inn á skemmtistaðinn Dubliner um helgina tengist árásinni.

„Við erum að skoða hvort það tengist en það er margt sem bendir til þess að svo sé,“ segir Margeir.

Búið er að byrgja fyrir gluggann sem sprengjan fór inn um.
Fréttablaðið/Anton Brink
Rúðan er mölbrotin.
Fréttablaðið/Anton Brink
Skemmdirnar eru töluverðar.
Fréttablaðið/Anton Brink